Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

75 ný störf með þangvinnslu í Stykkishólmi

09.10.2019 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um 75 ný störf yrðu til með stofnun nýrrar þangvinnslu í Stykkishólmi sem kanadíska fyrirtækið Acadian Seaplants vill setja á fót. Þar færu fram vinnsla og rannsóknir á klóþangi og þara úr Breiðafirði.

Stykkishólmsbær hefur hafið viðræður við Acadian um þangvinnslu í bænum. Tvö fyrirtæki sóttust eftir því að koma á fót vinnslu: Acadian Seaplants og Íslenska kalkþörungafélagið sem er í írskri eigu og starfrækir þegar þörungavinnslu á Bíldudal. Acadian rekur þegar vinnslustöðvar í Kanada, Bandaríkjunum, Skotlandi og Írlandi.  Ráðgjafarnefnd sem sett var á fót í Stykkishólmsbæ við val á fyrirtæki mat þá Acadian sem vænlegri kost. Í framhaldi af því hófust viðræður á milli bæjarins og fyrirtækisins.

„Við erum að setja saman mynd af því hver kostnaðurinn er við að byggja vinnslu, þá bæði hvað varðar kostnað sem fylgir starfskrafti, þangskurði og vinnslunni,“ segir Jean-Paul Deveau, forstjóri Acadian Seaplants. Deveau var á íbúafundi í Stykkishólmi í gær, 8. október, sem um hundrað íbúar sóttu til að heyra um áætlanir fyrirtækisins.

Gert er ráð fyrir um 900 milljóna króna stofnfjárfestingu á fimm árum til þess að ljúka fyrsta áfanganum. Hann leiðir af sér um þrjátíu störf. Undir fjárfestinguna falla kaup á búnaði, flutningskostnaður og kostnaður við land- og mannvirki.

„Við gerum okkur öll grein fyrir því að Ísland er dýrt umhverfi, en það eru ýmsir kostir í boði eins og jarðvarmi sem hægt er að nýta í vinnsluferlinu. Við hlökkum til þess að vinna úr öllum þeim upplýsingum til þess að geta sagst vera reiðubúin til þess að fjárfesta,“ segir Deveau.

Þörungaverksmiðjan á Reykhólum sker þegar klóþang í Breiðafirði. Búast má við að þangskurður í firðinum tvöfaldist við tilkomu vinnslustöðvar Acadian og næði allt að 40 þúsund tonnum á ári.