Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

75 ár frá því ríkið eignaðist Bessastaði

18.06.2016 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
75 ár eru í dag frá því að ríkið eignaðist Bessastaði sem bústað fyrir þjóðhöfðinga Íslands, fyrst fyrir ríkisstjóra, og síðar forseta lýðveldisins. Sigurður Jónasson forstjóri gaf þá ríkinu jörðina með öllum húsakosti til að hún gæti verið bústaður þjóðhöfðingja Íslands.

Ekki á eitt sáttir með Bessastaði

Samband Íslands og Danmerkur rofnaði þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku og Bretar hernámu Ísland vorið 1940. Í bók Illuga Jökulssonar, Ísland í aldanna rás, segir að ríkisstjórnin hafi eftir það farið með vald þjóðhöfðingja. Það hafi hins vegar ekki þótt heppilegt til lengdar og með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um væntanleg slit sambandins við Dani, var jafnframt kveðið á um skipan sérstaks ríkisstjóra sem fara skyldi með þjóðhöfðingjavaldið. Ríkisstjórnin hafði þann 13. júní 1941 fengið inn á sitt borð erindi frá Sigurði Jónassyni forstjóra og eiganda Bessastaða, um að hann byðist til að gefa ríkinu jörðina með öllum húsakosti til búsetu fyrir þjóðhöfðingja. Ekki voru allir á einu máli um að Bessastaðir væru heppilegur staður sem þjóðhöfðingjasetur. Bessastaðir væru lengst úti í sveit og þá hefðu Bessastaðir verið aðsetur danskra embættismanna fyrr á öldum og vektu ekki hlýjar minningar hjá landsmönnum. Aðrir bentu hins vegar á að Snorri Sturluson hefði setið þar.

Gaf ríkinu jörðina

Sigurður Jónasson athafnamaður eignaðist jörðina árið 1940 þegar hann keypti hana af Björgúlfi Ólafssyni lækni, sem hafði búið þar í 12 ár. Á undan honum höfðu búið þar m.a.  Jón H. Þorbergsson,  hjónin Skúli Thoroddsen og Theodóra Thoroddsen og Grímur Thomsen skáld. Ríkisstjórnin samþykkti boð Sigurðar og þáði Bessastaði að gjöf þann 18. júní 1941, fyrir nákvæmlega 75 árum. Og eftir rétta viku, 25. júní, skýrist hver eða hverjir verða næstu húsráðendur á Bessastöðum.

 

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV