Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

74% styðja ríkisstjórn Katrínar

30.12.2017 - 16:35
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Nærri þrír af hverjum fjórum kjósendum styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Aðeins ein ríkisstjórn hefur mælst með meiri stuðning á þessari öld.

Gallup kannaði fylgi stjórnmálaflokka 30. nóvember til 28. desember eða fyrstu fjórar vikurnar eftir að ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum. Fylgi flokkanna breytist lítið frá fyrri mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25,1% í nýjum þjóðarpúlsi Gallup og Vinstri græn með 17,3%. Samfylkingin er þriðji stærsti flokkurinn með stuðning 15,5% kjósenda, 11,9% styðja Framsóknarflokkinn og 10,1% Pírata. 6,5% styðja Viðreisn, 5,8% Miðflokkinn og 5,4% Flokk fólksins. 2,4% kjósenda styðja aðra flokka, þar af rúmlega 1% Bjarta framtíð.

Sögulega mikill stuðningur við ríkisstjórnina

Ríkisstjórnin nýtur mikils stuðnings því 74% kjósenda styðja hana. Frá árinu 1995 hefur aðeins ein ríkisstjórn mælst með meiri stuðning í byrjun kjörtímabils. Það var ríkisstjórn Geirs Haarde sem mældist með 76-83% stuðning fyrstu mánuði kjörtímabilsins árið 2007. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur naut stuðnings 65% kjósenda þegar hún tók við snemma árs 2009, 62,4% studdu ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar strax eftir að hún tók við eftir kosningar 2013 en stuðningur við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var 43,6% þegar hún tók við snemma árs 2017.

Könnunin var netkönnun en en 7001 var handahófsvalinn í úrtakið. Svarhlutfallið var 55,2% Af þeim sem svöruðu tóku 88,5% afstöðu til flokka, 6,5% tóku ekki afstöðu eða neituðu að svara og 5% sögðust myndu skila auðu. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,3-1,5%.

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV