Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

72 prósent vilja þjóðaratkvæðagreiðslu

12.03.2014 - 19:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
47 prósent landsmanna eru andvíg aðild að Evrópusambandinu en ríflega 37 prósent eru hlynnt aðild. Hins vegar eru 72 prósent hlynnt því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnanna við ESB. 21 af hundraði er á móti því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallups sem gerð var dagana 27. febrúar til 5. mars. Í sambærilegri könnun sem gerð var í júní 2010 voru talsvert fleiri andvígir aðild að ESB eða 59 af hundraði miðað við 47 prósent nú og 26 prósent hlynnt miðað við 37 prósent nú. Svipað hlutfall er hvorki hlynnt né andvígt, 14 prósent nú en 16 prósent fyrir fjórum árum.

91% framsóknarmanna á móti aðild

Talsverður munur er á afstöðu landsmanna eftir búsetu, menntun og eftir því hvaða flokk þeir kjósa. Það kemur ekki á óvart að  mikill meirihluti kjósenda stjórnarflokkanna er á móti aðild. 91 prósent í Framsókn og 87 af hundraði í Sjálfstæðisflokknum. Aðeins 3 til 4 prósent styðja aðild í stjórnarflokkunum. Könnunin var gerð vikuna eftir að fylgi Framsóknarflokksins mældist 13 prósent og fylgi Sjálfstæðiflokksins 19 af hundraði. Í Gallup könnun í júní 2010 voru á milli 13 til 14 prósent kjósenda stjórnarflokkanna hlynnt aðild og 76 af hundraði á móti. Sumir leiða að því líkum að stuðningsmenn aðildar hafi í auknum mæli sagt skilið við stjórnarflokkanna á síðustu misserum. 51 af hundraði Reykvíkinga er hlynntur aðild en aðeins tæpur fjórðungur þeirra sem búa á landsbyggðinni. Og þeir sem eru með háskólapróf upp á vasann eru hlynntari aðild en þeir sem eru aðeins með grunnskólapróf eða framhaldsskólapróf. Hlutfallslega mestur stuðningur við aðild er innan Samfylkingarinnar, sem kemur ekki á óvart, eða 78 af hundraði og 7 prósent eru á móti. Nær sömu hlutföll eru í röðum stuðningsmanna Bjartrar framtíðar. Innan Vinstri grænna eru 43 af hundraði hlynntir, 31 á móti og 26 prósent hvorki hlynnt né andvíg. Svipuð hlutföll eru meðal Pírata.

72 % vilja þjóðaratkvæðagreiðslu

Í þjóðarpúlsi Gallups var líka spurt um afstöðuna til þess að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðnanna við ESB. Heildarniðurstðana er að 72 prósent landsmanna eru hlynnt því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu, 7 prósent hvorki né og 21 prósent er andvígt. Marktækur munur er á afstöðu fólkst eftir aldri, búsetu, stuðningi við flokkanna og við ríkisstjórnina.  35 af hundraði sem styðja ríkisstjórnina vilja að efnt verði til þjóðaratkvæðageiðslu en 55 af hundraði eru á móti. Meðal andstæðinga ríkisstjórnarinnar vilja 91 prósent þjóðaratkvæði. Í aldursflokkunum er minnstur stuðningur við þjóðaratkvæðagreiðslu meðal þeirra sem eru 65 ára og eldri eða 61 prósent. Og mestur stuðningur við hana er meðal Reykvíkinga  um 80 af hundraði en utan höfuðborgarsvæðisins er stuðningurinn 63 prósent. 30 af hundraði þeirra sem segjast kjósa stjórnarflokkanna er hlynntir því að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslur. 60 prósent framsóknarmanna er á móti því og 57 prósent sjálfstæðismanna. Meðal stuðningsmanna minnihlutaflokkanna er stuðningurinn frá 80 af hundraði meðal Pírata upp í 97 prósent meðal stuðningsmanna Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar. 94 prósent Vinstri grænna vilja kjósa um framhalda aðildarviðræðna en 5 prósent eru á móti því.

59% vilja halda viðræðum áfram

Gallup spurði líka hvernig menn myndu ráðstafa atkvæði sínu ef þjóðaratkvæðagreiðslan færi fram. Þá kemur í ljós að 59 af hundraði myndi líklega eða örugglega greiða atkvæði með því að viðræðunum yrði fram haldið en 41 prósent að þeim yrði hætt. Minnstur stuðningur við áframhaldandi viðræður í aldurshópunum er meðal þeirra sem eru  eldri en 65 ára eða 53 prósent. 76 af hundraði Reykvíkinga vilja halda áfram viðræðum en aðeins 45 af hundraði á landsbyggðinni. Háskólamenntaðir eru mun  hlynntari áframhaldandi viðræðum en þeir sem eru aðeins með grunnskóla- eða framhaldskólamenntun.  Meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins segjast 13 prósent líklega eða örugglega vilja halda áfram viðræðum sem þýðir að 87 prósent vilja að þeim verði hætt. Í Sjálfstæðisflokknum eru 17 prósent með því að haldið verði áfram og 83 prósent vilja slíta viðræðunum. Mikill meirihluti, sem kemur ekki á óvart , er hlynntur því að halda áfram viðræðum bæði í Samfylkingunni og Bjartri framtíð. Í Samfylkingunni 98 prósent og 94 í Bjartri framtíð. 78 af hundraði stuðningsmanna Vinstri grænna vilja halda áfram og 84 prósent stuðningsmanna Pírata. Könnun Capacent var gerð dagana 27. febrúar fram til 5. mars. Úrtakið var 1400 manns og svarhlutfall 61 prósent.