Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

71 prósent hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju

17.12.2015 - 15:57
Þingeyri  Dýrafjörður
 Þingeyri  Dýrafjörður
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Kjósendur Pírata og Bjartrar framtíðar reyndust hlynntastir aðskilnaði ríkis og kirkju í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins reyndust hins vegar síst hlynntir aðskilnaði, þar voru 62 prósent andvíg aðskilnaði. Þeir sem styðja ríkisstjórnina reyndust sömuleiðis síður hlynntir aðskilnaði en þeir sem styðja hana ekki.

Þegar á heildina er litið, reyndust nærri 71 prósent, þeirra sem tóku afstöðu, hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju. Í Þjóðarpúlsinum kemur fram að hlutfallið sé hærra en þegar spurt var í fyrra en svipað og í næstu fjórum mælingum þar á undan. Þegar þeir eru teknir með í reikninginn, sem segjast hvorki hlynntir né andvígir aðskilnaði, er hlutfall þeirra sem eru hlynntir aðskilnaði rúmlega 55 prósent. Yngra fólk reyndist almennt hlynntara aðskilnaði ríkis og kirkju og íbúar höfuðborgarsvæðisins eru hlynntari aðskilnaði en íbúar landsbyggðarinnar.

37 prósent treysta þjóðkirkjunni

37 prósent þjóðarinnar bera mikið traust til þjóðkirkjunnar samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. 31 prósent ber lítið traust til þjóðkirkjunnar og svipað hlutfall hvorki mikið né lítið. 40 prósent báru mikið traust til þjóðkirkjunnar í sömu könnun fyrir ári. Traust til kirkjunnar hefur þó mælst mun minna áður. Minnst var traustið í febrúar 2012 þegar 28 prósent sögðust treysta þjóðkirkjunni.

Konur treysta þjóðkirkjunni betur en karlar og traustið er meira hjá eldra fólki og fólki utan höfuðborgarsvæðisins.

37 prósent þeirra sem afstöðu tóku eru ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur biskups. 16 prósent taka ekki afstöðu, en 48 prósent af þeim sem tóku afstöðu voru hvorki ánægð né óánægð með störf Agnesar. 12 prósent segjast óánægð með störf biskups. Konur er almennt ánægðari með Agnesi en karlar, eldra fólk og íbúar dreifbýlis.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV