Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

700 farþegar Icelandair strandaglópar á Íslandi

07.01.2020 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Millilanda- og innanlandsflug raskast í dag og í fyrramálið. Icelandair hefur aflýst 40 ferðum, sem hefur áhrif á yfir 8 þúsund farþega. Landsnet er í viðbragðsstöðu vegna veðursins, sem fylgir ísing og selta á rafvirki. Tvö tengivirki hafa verið mönnuð á Reykjanesi og Vesturlandi, tíu önnur eru í gjörgæslu.

Öllu flugi til og frá Keflavíkurflugvelli að undanskildu flugi Norwegian og Wizz air hefur verið aflýst seinnipartinn í dag og í fyrramálið. Farþegar eru beðnir um að fylgjast með á vef Isavia og tilheyrandi flugfélaga.

Icelandair hefur aflýst öllu sínu flugi frá klukkan fjögur í dag þar til eftir hádegi á morgun vegna veðurs. Þetta hefur áhrif á 40 flugleiðir, til Bandaríkjanna og Evrópu og yfir átta þúsund farþega. Nokkrir flýttu fluginu sínu í gær vegna veðursins en gert er ráð fyrir að 700 erlendir farþegar verði strandaglópar á Íslandi vegna þessa, samkvæmt upplýsingum frá Icelandair. Flug til og frá Keflavíkurflugvelli er á áætlun klukkan ellefu í fyrramálið enn sem komið er.

Innanlandsflugi aflýst

Air Iceland connect hefur aflýst öllu flugi í dag. Í morgun var flogið til Akureyrar og Egilsstaða en síðasta vél þaðan til Reykjavíkur er á leiðinni núna. Þá hefur flugfélagið Ernir hefur aflýst öllu flugi í dag.

Manna tvö tengivirki en fylgjast með tíu

Landsnet hefur virkjað viðbragðsáætlun. Vegna lægðarinnar er reiknað með auknu álagi á raforkukerfið fram á morgun vegna ísingar og seltu. „Það er búið að taka ákvörðun um að manna tengivirki á Fitjum á Reykjanesi og Brennimel á Vesturlandi. Síðan erum við með 10 önnur tengivirki í gjörgæslu þar sem er stutt í aðstoð ef eitthvað gerist,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets.

 Svæðin sem Landsnet fylgist sérstaklega með eru Reykjanesskagi, höfuðborgarsvæðið, Vesturland, Snæfellsnes og Suðurland. Þá eru slökkviliðin í viðbragðsstöðu. Það gæti þurft að kalla til dælubíla til að hreinsa tengivirkin. Hægt er að fylgjast með þróun mála á vef Landsnets og í appi.