Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

70% fleiri kvarta til Persónuverndar

15.07.2019 - 21:04
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Kvörtunum til Persónuverndar hefur fjölgað um 70 prósent á einu ári, eða frá því að ný persónuverndarlöggjöf tók gildi. Stofnunin annar ekki verkefnum að mati skrifstofustjóra.

Persónuverndarlöggjöfin sem í dag er ársgömul gefur fólki möguleika til að stýra betur sínum persónuupplýsingum.  Síðan hún gekk í gildi hefur Persónuvernd borist 135 kvartanir. Allt árið í fyrra bárust stofnuninni hundrað kvartanir. „Stofnunin annar ekki eftirspurn að öllu leyti,“ segir Þórður Sveinsson skrifstofustjóri lögfræðisviðs Persónuverndar.

Þórður segir jafnframt að mannekla hafi sett strik í reikninginn. „Þetta hefur leitt af sér að talsverður fjöldi mála frá gildistíð eldri laga hefur enn verið óafgreiddur. Það saxast smám saman á þetta en þetta hefur auðvitað orðið til þess að stofnunin hefur ekki getað sinnt innleiðingu á nýrri löggjöf eins og vel og ella hefði verið unnt,“ segir Þórður.

Markmiðið sé að auka frumkvæðiseftirlit Persónuverndar. Nú stendur til dæmis yfir úttekt á vinnslu persónuupplýsinga hjá Sjúkratryggingum Íslands. Þá hefur fyrirspurnum til Persónuverndar fjölgað töluvert. Þúsund fyrirspurnir hafa borist stofnuninni eftir að lögin tóku gildi. Allt árið 2017 voru þær 640.

„Það hafi ekki verið óalgengt að málsmeðferðartíminn hafi nálgast ár eða jafnvel verið heilt ár,“ segir Þórður.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV