Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

[672 hornklofar] Sjötta greinin eitt aðalmálið í Madríd

epa08039739 A general view of one of the exhibition stands on the first day of the COP25 Climate Summit in Madrid, Spain, 02 December 2019. Some 5,000 agents will look out for the security of some 29,000 people from 196 delegations that will be attending the UN Climate Change Conference COP25 from 02 to 13 December 2019 in the Spanish capital.  EPA-EFE/EMILIO NARANJO
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Strangt til tekið gætum við Íslendingar haldið áfram að losa gróðurhúsalofttegundir í þeim mæli sem við höfum gert. Samdráttarmarkmiðum sem eru á ábyrgð stjórnvalda mætti ná með því að byggja upp vindorkuver eða virkja jarðvarma í öðrum ríkjum. Það er búið að veita aðildarríkjum Parísarsamkomulagsins heimild til að versla með losunarheimildir innanlands eða milli ríkja en nákvæm útfærsla á þessu alþjóðlega viðskiptakerfi sem er kallað SDM liggur ekki fyrir.

Þurfum líklega að borga helling

Kerfið á að leysa af hólmi annað kerfi, CDM, sem var komið á laggirnar í tengslum við Kyoto-bókunina, þegar það tímabil verður gert upp þarf Ísland líklega að kaupa losunarheimildir fyrir hundruð milljóna af ríkjum sem hafa náð markmiðum sínum og gott betur, við höfum nefnilega ekki náð okkar. 

Þrætueplið frá í fyrra klárað í ár

Nýja kerfið er ólíkt því gamla að því leyti að þar er mikil áhersla á samvinnu ríkja, stjórnvöld hér þurfa ekki endilega að ná samdráttarmarkmiðunum heima, þau geta náð þeim annars staðar jafnvel í samvinnu við önnur ríki. Þá fær eitt ríkið ávinningin í bókhaldið eða bæði. Þetta er ekki alveg komið á hreint. 

Má ekki vera hægt að braska

Að setja reglur um viðskipti með losunarheimildir er eitt stærsta verkefnið sem bíður sendinefnda á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd næstu tvær vikur. Það þarf að ákveða hvernig skuli koma í veg fyrir svindl, tvítalningu og glufur. Ákvæðin um viðskiptakerfið er að finna í sjöttu grein Parísarsamkomulagsins. Hún var þrætuepli á ráðstefnunni í Katowice í fyrra, þar sem unnin var handbók með reglum um hvernig skyldi framfylgja samningnum.

Samningamenn gátu ekki komið sér saman um hvaða reglur ættu að gilda um þetta viðskiptakerfi. Á borðinu fyrir framan samningamenn í Madríd liggur því þurr lagatexti alsettur tómum hornklofum, 672 talsins. Greinin sjálf er reyndar stutt, bara tvær síður en úrlausnarefnin sem taka þarf afstöðu til eru mörg. Innan tveggja vikna þarf sjötta greinin að vera tilbúin og þannig úr garði gerð að ekki verði hægt að braska með hana. Þá verður Parísarsamningurinn sjálfur klár og ríki heims geta farið að einbeita sér alfarið að aðalmálinu, því að skerpa á markmiðunum og finna leiðir til að draga meira og hraðar úr losun.

Hagkvæmara að draga úr losun

Halldór Þorgeirsson, formaður loftslagsráðs stjórnvalda, starfaði áður hjá Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og gegndi lykilhlutverki í viðræðunum í aðdraganda Parísarsamkomulagsins, hann skilur þetta kerfistal. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Halldór Þorgeirsson.

„Þetta hljómar flókið en þetta er í raun mjög mikilvægur þáttur í Parísarsamningnum. Þjóðarframlögin koma frá einstökum ríkjum en ríkjum er heimilt innan samningsins að vinna saman að framfylgd. Það þýðir að þú getur verið í samstarfi við aðrar þjóðir og fjármagnað aðgerðir sem eru hugsanlega hagkvæmari í öðrum löndum. Árangurinn geturðu svo flutt á milli.“ 

Ef illa tekst til gæti það grafið undan samningnum

Ríki sem ná markmiðum sínum og gott betur geta selt umframsamdráttinn til annarra ríkja sem standa verr. Ríki sem eiga erfitt með að draga úr losun geta fjármagnað samdráttarverkefni í öðrum löndum og talið það sér til tekna. Talið er að viðskipti með losunarheimildir geti gagnast við að draga úr losun og gert aðgerðir hagkvæmari. Forsendan er sú að þjóðum heims takist að sammælast um skýrt og skilmerkilegt regluverk. Ef það tekst ekki getur það aftur á móti grafið undan Parísarsamkomulaginu, jafnvel leitt til aukinnar losunar. 

Spegillinn spurði Halldór átta spurninga til að reyna að glöggva sig betur á fyrirhuguðu viðskiptakerfi. 

Sjá einnig: Guterres segir mannkynið standa á krossgötum

Fyrsta spurning: Af hverju er sjötta greinin þrætuepli? 

„Átökin snúast fyrst og fremst um það hversu skýrar umhverfiskröfurnar verða þannig að það sé á hreinu að það sé raunverulegur samdráttur sem er verið að flytja á milli,“ segir Halldór. 

Brasilía vill halda í gömlu heimildirnar

Í fyrra strönduðu viðræðurnar meðal annars á kröfum Brasilíu, Indlands og Kína um að fá að nýta áfram heimildir sem þau hafa safnað í gamla Kyoto-kerfinu. Mikið magn uppsafnaðra heimilda myndi lækka verð á þeim og þar með myndi kerfið skila minni árangri. Halldór telur að það verði einfaldara að ganga frá þessum málum á ráðstefnunni í ár en í Katowice í fyrra því flækjustigið hafi þá verið svo hátt og samhliða verið að ganga frá ýmsum öðrum reglum sem tengjast viðskiptakerfinu. Nú sé það frágengið og hægt að einbeita sér alfarið að sjöttu greininni. Það þarf að nást samstaða, einfaldur meirihluti er ekki nóg - afstaða ríkja á borð við Brasilíu getur því haft mikið að segja um hvernig viðræðurnar í Madríd fara. „Það eru miklir hagsmunir í húfi og það er mikilvægt að niðurstaðan verði þannig að þetta skapi strax þrýsting á samdrátt,“ segir Halldór. 

epa08043259 Spanish acting Environment Minister Teresa Ribera (2-R), Director of the World Health Organization (WHO) Maria Neira (L), film director and director of the international project 'Cape Farewell' David Buckland (2-L) and Deputy Executive Secretary of the United Nations Framework Convention on Climate Change (UNFCCC) Ovais Sarmad (R) visit the installation 'pollution pods' by Michael Pinsky during the COP25 Climate Summit in Madrid, Spain, 04 December 2019. Five interconnected geodesic domes recreate the pollution levels of different capital cities around the world. The UN Climate Change Conference COP25 runs from 02 to 13 December 2019 in the Spanish capital.  EPA-EFE/JJ GUILLEN
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin kom upp gróðurhúsum þar sem líkt er eftir mengunarálagi í mörgum stórborgum. Loftslagsbreytingar og loftmengun eru ekki það sama en vandamálin tengjast. Kolaver skapa til dæmis mikla loftmengun.

Önnur spurning: Hafa svona viðskiptakerfi virkað? Hefur ekki verið offramboð á heimildum og verðið of lágt? 

„Ég held það sé ekki alveg rétt að þetta gangi ekki vel því þetta er svo mikilvægur þáttur í því að verðleggja kolefni. Hluti af ástæðunni fyrir því að við erum í þessum vanda er að það er mikill markaðsbrestur. Aðgangur að hinu sameiginlega andrúmslofti er ókeypis. Það er í raun verið að breyta því svolítið með þessum viðskiptum. þannig að það felist kostnaður í því að halda áfram að losa. Með því breytast líka forsendur til fjárfestinga. Þetta er mjög mikilvægur hluti af lausninni og þetta er að aukast mikið. Ríkin eru að setja upp sín eigin kerfi, Kínverjar að koma með sterkt innspil með því að halda utan um stóran hluta sinnar losunar með svona verðlagningu. Það er fyrsta skref að setja verðið en það þarf að vera nægilega hátt til að það hafi raunveruleg áhrif á fjárfestingar. Í upphafi, þegar svona kerfi eru sett upp, verða kröfurnar stundum ekki nógu öflugar. Það skiptir því miklu máli hvernig þetta er gert en það er engin spurning að svona viðskiptakerfi eru hluti af lausninni.“

Þarf lagalega bindandi reglur

Það á ekki að tengja saman þau kerfi sem þegar eru til heldur búa til regluverk í kringum viðskipti sem hægt er að færa inn í losunarbókhaldið. Það þarf lagalega bindandi alþjóðasamninga um hvernig heimildir verða seldar á milli landa. Parísarsamkomulagið er flókið fyrir. Það þarf að fylgjast með því hvernig ríkjum heims gengur að ná markmiðum sínum og tryggja að bókhaldið sé í lagi. Nú verður bókhaldið, sem hvert og eitt ríki sér um og skilar reglulega inn til Loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, enn flóknari því nú geta ríki ráðist í aðgerðir í öðrum löndum, nú eða borgað öðrum löndum fyrir að ráðast í aðgerðir og reiknað það sér til tekna. 

Þriðja spurning: Er hægt að tryggja að viðskipti í þessu kerfi leiði raunverulega til þess að heimslosun dragist saman? 

„Ég held að flækjustigið sé ekki það hátt þegar svona kerfi eru komin í gang, það er auðvelt að halda utan um þetta, það er reynsla á þessu sviði, þetta er ekki alveg nýtt og þetta fellur líka inn í efnahagskerfið sjálft sem er flókið en virkar samt.“

Norðmenn ætla að vera með, Finnar ekki

Norðmenn hafa lýst því yfir að liður í því að ná kolefnishlutleysi verði að ráðast í verkefni í öðrum löndum. Finnar hafa aftur á móti lýst því yfir að þeir hyggist ekki kaupa samdrátt annars staðar eða selja eiginn umframárangur. Halldór telur að afstaða Finna til kerfisins breytist hugsanlega þegar regluverkið verður klárt. 

Villta vestrið megi ekki ráða

Halldór segir leikreglurnar í viðskiptakerfinu þurfa að vera þannig að andrúmsloftið njóti vafans. 

„Ef við látum villta vesturs lögmálin gilda er mikil hætta á því að þetta verði ekki gert eins og æskilegt væri að gera það. Þess vegna er svo mikilvægt að það verði byggt upp alþjóðlegt regluverk í kringum þetta, það er á borðinu og vonandi ná þjóðirnar samstöðu um það og gera það lagalega bindandi.“

Ríkar þjóðir geta sleppt því að draga úr losun heima fyrir og ráðist þess í stað í verkefni í efnaminni ríkjum. Efnaminni ríkin hafa ekki endilega slíkt val.

Spurning fjögur: Er þetta sanngjarnt?  

Halldór telur að meginþorri viðskipta með losunarheimildir verði innan ríkja, til dæmis geti fyrirtæki sem stendur sig vel selt ríkisstofnun sem stendur sig verr heimildir. Aðgerðir í öðrum löndum séu frekar hugsaðar sem viðbót. „Frumkvæðið verður alltaf heima fyrir og ef maður horfir á þjóðarframlög þróunaríkjanna þá eru þau í raun að hrópa á aðstoð til að byggja upp endurnýjanlega orku.“

Eftirsóknarvert að ráðast í aðgerðir hér

Halldór talar ekki fyrir því að íslensk stjórnvöld gefist upp á því að draga úr losun hér og ráðist þess í staði í jarðhitaverkefni í öðrum ríkjum. Það sé okkur í hag og eftirsóknarvert að vinna að aðgerðum hér, til dæmis á sviði samgangna og til að minnka losun frá úrgangi. Við getum þó líka látið til okkar taka annars staðar. „Verkefnið er bara svo stórt að við þurfum að gera hvoru tveggja.“