Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

63% vilja þjóðgarð á miðhálendinu

09.11.2018 - 17:32
Mynd með færslu
 Mynd: Ferðastiklur/Þór Freysson - RÚV RÚV
63% almennings á Íslandi eru fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Þetta kom fram í máli Michaël Bishop á Umhverfisþingi er hann kynnti niðurstöður spurningakönnunar Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Tæplega 10% andvíg slíkum þjóðgarði.

 

Fram kom einnig að ríflega 75% þeirra sem eru fylgjandi stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu tiltaka að hann myndi vernda mörg svæði sem ekki njóta verndar í dag, rúmlega 70% þeirra að hann myndi vernda miðhálendið sem eina heild og 68% að hann myndi auka skilning á verðmæti miðhálendisins. Rannsóknin var hluti af meistaraverkefni Michaëls í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Lagafrumvarp næsta haust

þverpólitísk nefnd vinnur nú að því að undirbúa stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Í máli Óla Halldórssonar, formanns nefndarinnar, kom fram að nefndin væri byrjuð að fjalla um mörk þjóðgarðsins og að stefnt væri að samráðsfundum með sveitarfélögum og nytjaréttarhöfum. Nefndin mun skila af sér tillögu að lagafrumvarpi næsta haust. 

Lítt snortin náttúra, kyrrð og fámenni

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, kynnti rannsóknir sína á viðhorfum ferðamanna á miðhálendinu en hún hefur í gegnum tíðina lagt spurningalista fyrir alls 9.000 ferðamenn á hálendinu og tekið viðtöl við hátt í 300 manns. Í máli hennar kom meðal annars fram að ferðamenn nefna sem aðdráttarafl hálendis að þar sé einstök og lítt snortin náttúra, einfaldleiki, kyrrð og fámenni.

 

Auður Aðalsteinsdóttir