Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

62% ánægð með kjarasamninga VR og Eflingar

21.05.2019 - 17:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjö af hverjum tíu telja VR og Eflingu vera ástæðu þess að vel hafi tekist til við kjarasamninga þeirra við Samtök atvinnulífsins á móti 34 prósentum sem telja Samtök atvinnulífsins ástæðuna. Tæplega helmingur taldi að samningarnir væru stjórnvöldum að þakka. Þá er meirihluti landsmanna, eða 62 prósent, ánægður með kjarasamningana, samkvæmt könnun MMR á viðhorfi landsmanna gagnvart kjarasamningum VR og Eflingar við Samtök atvinnulífsins.

Fólk var jákvæðara í garð kjarasamninganna eftir því sem það var eldra. Þátttakendur 68 ára og eldri voru jákvæðastir eða alls 75 prósent. Helmingur fólks í yngsta aldurshópnum, 18-29 ára, var jákvæður. Stuðningsfólk ríkisstjórnarflokkanna var líklegra til að eigna stjórnvöldum heiðurinn að nýju kjarasamningunum á meðan stuðningsfólk stjórnarandstöðunnar var líklegra til að eigna stéttarfélögunum tveimur heiðurinn. 

Könnun MMR var gerð 11.-13. apríl, náði til fólks 18 ára og eldri og alls tóku 1.003 þátt.

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV