Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

60 þúsund Íslendingar kunna skyndihjálp

08.05.2019 - 11:00
Mynd: Bergljót Baldursdóttir / Bergljót Baldursdóttir
Um sextíuþúsund Íslendingar hafa farið á námskeið í skyndihjálp hér á landi. Hjörtur Oddsson, hjartalæknir og formaður Endurlífgunarráðs Íslands segir að þessi mikli fjöldi skýri hvers vegna árangur af endurlífgun er sérlega góður á Íslandi. Um 140 endurlífganir eru árlega utan sjúkrahúsa á Íslandi

140 endurlífganir árlega utan sjúkrahúsa

Endurlífgunarráð Íslands er undirdeild Endurlífgunarráðs Evrópu sem sér um að útbreiða fagnaðarerindið um endurlífgun.

Endurlífgunarráð Íslands sér um kennslu í endurlífgun hér á landi. Rauði krossinn og Landsbjörg hafa séð um að kenna almenningi en Endurlífgunarráðið sjálft sér um kennslu í flóknari endurlífgun sem er fyrir heilbrigðisstarfsólk og bráðaliða.

Nokkuð vel hefur verið fylgst, á sjúkrahúsum á höfuðborgarsvæðinu, með árangri endurlífgana. Skýrsla um endurlífgun frá 2008 til 2017 er í vinnslu og þegar má sjá í henni að árangur er góður. Einnig er til skýrsla um endurlífgun sem náði yfir fimm ár fram til 2008.  

„Úti í bæ, það sem er fyrir utan sjúkrahús, þar eru auðvitað nokkuð margar endurlífganir. Það eru um 100 hérna á höfuðborgarsvæðinu og ef við kíkjum til alls landsins þá eru kannski 140 en við höfum ekki jafngóða skráningu yfir allt landið fyrir utan það sem er á Akureyri.  Erum við að tala hér um 100 á ári?  Já sem við náum.“ 

60 til 70 prósent fólks fær hjálp á vettvangi

Árangur endurlífgunar kemur ekki í ljós fyrr en eftir um það bil mánuð frá endurlífgun. Hjörtur segir að hér á landi sé mjög hátt hlutfall fólks sem fær hjálp strax á staðnum. 

„Það er svolítið sérstakt hérna og við skildum það ekki í byrjun út af hverju. Það er 60 til 70% sem fá hnoð frá byrjun sem er með hærri tölum sem við sjáum, sem er rapporterað.  Og er eiginlega bara svipað og kemur fram í þessum öppum sem er farið að nota í stórborgum nágrannalanda okkar.“

Til eru öpp þar sem þeir eru skráðir sem kunna endurlífgun. Ef einhver sem er skráður í appið er nágrenni við mann sem dottið hefur niður fær hann viðvörun í símann sinn og getur þá hlaupið á staðinn.  App af þessu tagi er ekki til hér á landi. 

Hjörtur segir að gríðarlegur fjöldi Íslendinga hafi fengið kennslu í grunnendurlífgun. 

„Það er skráð hér 60 þúsund manns á 5 árum. Þetta eru sko kennitölur, þetta er ekki sama fólkið sem er kennt aftur og aftur. Langflestir eru skráðir sem hæfir eftir námskeið á vegum Rauða kross Íslands en einnig á vegum Landsbjargar. Til viðbótar þessu er talsvert af fólki sem fær ekki skírteini sem vinnur hér á Landspítalanum sem fær eiginlega allt kennslu þannig að þetta er gríðarlegur fjöldi sem kann endurlífgun og þetta er skýringin.“ 

Árið 2017 var farið að kenna endurlífgun í skólum, t.d. í menntaskólum. Einnig hafa vinnustaðir og félagasamtök staðið fyrir slíkri kennslu.

Endurlífgunarráð Evrópu hefur verið að hvetja til þess að börnum í skóla sé kennd endurlífgun frá svona 10 eða 11 ára aldri. Þau læra þá að bregðast rétt við, læra símanúmer, byrja hnoð, leggja fólk rétt ef það verður fyrir áverkum og reyna að bjarga fólki. 

25 - 30% af 100 sem fá endurlífgun lifa af 

60 þúsund er ansi stórt hlutfall af Íslensku þjóðinni. “Þetta skýrir auðvitað rosalega góðan árangur því vegna þess að af þessum 100 sem við fáum á Reykjavíkursvæðinu þá lifa af kannski svona 25 til 30 % á hverju ári. Annarsstaðar er þessi hópur mun lægri  - það er talað um að góður árangur sé kannski yfir 10%“  

Hjörtur segir að þessar tölur hafi vakið athygli félaga hans í Endurlífgunarráði Evrópu.

„Sko þegar við förum að segja hve margir hafi fengið kennslu þá finnst félögum mínum í Endurlífgunaráði Evrópu þetta með ólíkindum vegna þess að þeir eru að vinna í því að  reyna mennta þjóðina. En Rauði krossinn hefur staðið sig alveg ótrúlega vel í þessu og menntað mjög mikið af kennurum sem að hafa sýnt þessu áhuga.“  

Ekki tekist að láta skrá öll sjálfvirk hjartastuðtæki

Endurlífgunarráð hefur reynt að koma upp appi eða smáforriti þar sem öll hjartastuðtæki á landinu eru skráð. Slík öpp hafa verið í notkun víða erlendis og hafa skilað mjög góðum árangri. Þeir sem koma að einhverjum í hjartastoppi og eru með appið í símanum geta þá séð strax hvar næsta stuðtæki er. Hver mínúta sem líður skiptir miklu máli. Slík öpp hafa verið notuð t.d. í Stokkhólmi í Svíþjóð. Hægt er að sjá á vefsíðu eniro.se   

Ef einhver dettur niður t.d. í Borgartúni þá gæti sjálfvirkt hjartastuðtæki verið inn í einhverjum af bönkunum eða skrifstofunum þar. Þá væri hægt að senda einhvern til að ná í það því við hverja mínútu sem líður þá minka líkurnar á því að hægt verði að bjarga manninum.  Ef tekst að bjarga honum innan 5 mínútna þá er ósennilegt að hann fái einhvern heilaskaða ef hann hefur fengið hnoð allan tímann. En eftir það þá minnka líkurnar að hægt sé að bjarga honum.  

Því miður hefur ekki tekist að skrá tækin hér á landi. Hvers vegna?  

„Þau eru auðvitað í eigu einstaklinga og fyrirtækja sem eru kannski ekki alveg viljug að gefa sig út fyrir að vera þetta. Það er líka einhver persónuverndarsjónarmið frá þeim sem eru að selja þetta. Þeir vita margir nákvæmlega hvar þau eru því þeir veita þjónustu og endurnýja batterí og patsa sem eru tengd tækjunum. En þetta hefur ekki tekist alveg hjá okkur …. En það væri mjög mikið unnið ef hægt væri að merkja hvar tækin væru. Fólk sæi það bara við innganginn. Sum fyrirtæki hafa AED tæki og starfsfólk fyrirtækisins veit ekki um það.“

Endurlífgunarráð veltir nú fyrir sér hvort hægt sé að koma upp appi þar sem þessi stóri hópur fólks hér á landi sem kann endurlífgun er skráð.  Ef það tekst verður auðveldara að ná í fólkið því þeir sem þar yrðu skráðir fá viðvörun í símann ef þeir eru í 200 metra fjarlægð frá einhverjum sem dottið hefur niður. 

Heyra má Hjört ræða um þessi mál í spilaranum hér fyrir ofan

 

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV