Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

60 boðað komu á kynningarfund Bandaríkjahers

12.08.2019 - 16:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
60 starfsmenn frá þrjátíu verktakafyrirtækjum hafa boðað komu á kynningarfund vegna viðhaldsverkefna á öryggisvæðinu á Keflavíkurflugvelli, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Verkfræðistofnun bandaríska hersins í Evrópu stendur að fundinum í samvinnu við utanríkisráðuneytið og Landhelgisgæsluna en hann verður í byggingu 179 á öryggisvæðinu.

Fram kemur á vef Ríkiskaupa að að engar skuldbindingar felist í þátttöku og að fjöldi þátttakenda sé takmarkaður við tvo frá hverju fyrirtæki. Fyrirtækin verði jafnframt upplýst um hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að geta unnið með verkfræðistofnun hersins.

Viðamiklar framkvæmdir standa til á öryggisvæðinu. Bandarísk yfirvöld birtu í lok júní auglýsingu um fyrirhugað útboð á hönnun og framkvæmdum á svæðinu. Framkvæmdirnar eru í þremur liðum og áætlaður kostnaður um 6,2 milljarðar króna. Bandarísk yfirvöld fjármagna þessar framkvæmdir og ætla einungis að semja við íslensk og/eða bandarísk fyrirtæki.  

Í haust eiga að hefjast framkvæmdir upp á þrjá milljarða á vegum bandaríska verktakans Rizzani DE Eccher og ÍAV. Þær verða þær fyrstu á vegum bandarískra stjórnvalda síðan varnarliðið hætti starfsemi haustið 2006.