Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

585.000 dóu vegna fíkniefnaneyslu árið 2017

epa05885132 A handout photo made available by the Police Antinarcotics of Colombia shows a seizure of cocaine in Barranquilla, Colombia, 02 April 2017. The Police seized 6.2 tonnes of cocaine belonging to the criminal band Clan del Golfo, before it was
 Mynd: EPA - Fíkniefnalögreglan í Kólumb?
Eiturlyfjaframleiðsla fer stöðugt vaxandi á heimsvísu og kókaínframleiðsla hefur að aldrei verið meiri en nú. Samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um framleiðslu, dreifingu og neyslu fíkniefna árið 2017 dóu um 585.000 manns vegna fíkniefnaneyslu og afleiddra veikinda það ár. Þar af dóu um 70.000 manns úr ofskammti eiturlyfja í Bandaríkjunum einum saman. Þá jókst kókaínframleiðsla um 25 prósent frá árinu 2016.

Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna mun um 271 milljón manna hafa neytt efna á borð við kannabis, kókaín, ópíóða, amfetamín og alsælu árið 2017, og hefur fíkniefnaneytendum þannig fjölgað um 30 prósent frá árinu 2009. Samkvæmt þessu hafa 5,5 prósent Jarðarbúa á aldrinum 15 - 64 ára neytt vímuefna af þessu tagi. Langflestir úr þessum hópi, eða 188 milljónir, neyttu kannabisefna, samkvæmt áætlun Sameinuðu þjóðanna.

Langt leiddir fíkniefnaneytendur, sem þurfa á læknisaðstoða að halda, eru taldið 35 milljónir, en voru 30 milljónir 2016. Munar þar mestu um mikla fjölgun í hópi ópíóðaneytenda, ekki síst í Indlandi og Nígeríu, þar sem þeim fjölgaði um 56 prósent milli ára.

Metár í kókaínframleiðslu

1.976 tonn af kókaíni voru framleidd árið 2017 svo rannsakendum Sameinuðu þjóðanna sé kunnugt um, fjórðungi meira en árið áður. Um 70 prósent alls kókaíns kemur frá Kólumbíu, þar sem kókaínakrar stækkuðu um 17 prósent milli ára. Um leið og framleiðslan óx jókst það magn sem yfirvöld haldlögðu og 2017 var metár hvað það snerti: 1.275 tonn af kókaíni komust aldrei til neytenda þar sem toll-, strand- og löggæsluaðilar lögðu hald á þau.

Talið er að yfir 18 milljónir manna neyti kókaíns, langflestir í Bandaríkjunum og Evrópu. Af þeim 70.000 manns sem dóu úr ofskammti eiturlyfja í Bandaríkjunum létust 47.000 úr ofskammti ópíóða. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV