
56% vilja seinka klukkunni um klukkutíma
Markmiðið er að bæta lýðheilsu með auknum meðalsvefntíma landsmanna. Með því móti megi bæta lýðheilsu og vellíðan, auka framleiðni og námsárangur og draga úr brotthvarfi úr skólum.
Fólki voru gefnir þrír valkostir:
1. Klukkan áfram óbreytt en fólk hvatt með fræðslu til að fara fyrr að sofa.
2. Klukkunni seinkað um eina klukkustund.
3. Klukkan áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.
Um 37 prósent þátttakenda vildu að klukkan yrði áfram óbreytt, um 56 prósent vildu að henni yrði seinkað um eina klukkustund og um fjögur prósent vildu að starfsemi skóla og stofnanna hefðist seinna á morgnanna. Um þrjú prósent þátttakenda tóku ekki afstöðu.
Flestir þeir sem vildu að klukkunni yrði seinkað töldu að staðartími ætti að vera í takt við líkamsklukku. Mikilvægt sé að fjölga birtustundum. Helstu rök gegn því að klukkunni verði seinkað beinast meðal annars að því að birtustundum á bilinu 07.00 til 23.00 muni fækka um þrettán prósent yfir árið verði klukkunni breytt.
Breyting muni leiða til skerðingar dagsbirtu í lok dags sem geti falið í sér aukna slysahættu og minni útiveru. Þá muni meiri tímamunur milli Íslands og meginlands Evrópu hafa neikvæð áhrif á viðskiptalífið. Þannig muni minni síðdegisbirta hafa neikvæð áhrif á flug og ferðaþjónustu.
Svefntími hafi styst verulega á síðustu áratugum án þess að breytingar hafi orðið á klukku og efasemdir eru um að stilling klukku hafi mikið að segja gagnvart raflýsingu, skjánotkun og nútíma lifnaðarháttum, segir þá þar.
Forsætisráðuneytið vinnur nú með niðurstöður samráðsins og stefnt er að því að niðurstaða fáist í vor.