Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

52 írönsk skotmörk í sigtinu

05.01.2020 - 00:32
epa08100741 US President Donald J. Trump speaks during the Evangelicals for Trump Coalition Launch, at the King Jesus International Ministry in Miami, Florida, USA, 03 January 2020. The event will bring together Evangelicals from across the nations who support President Trump’s re-election.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir Bandaríkjaher vera með 52 írönsk skotmörk í sigtinu ef þeir ætla að hefna láts herforingjans Qasim Soleimani. Trumps segir á Twitter að Íranir séu djarfir að tala um að þeir ætli að að ráðast á ákveðin bandarísk skotmörk til að hefna láts Soleimanis, sem var yfirmaður sérsveitar íranska byltingarvarðliðsins.

Hann segir Bandaríkin hafa gert út af við hryðjuverkaleiðtoga sem hafi ekki aðeins drepið Bandaríkjamenn og sært enn fleiri, heldur hafi hann fjölda mannslífa á samviskunni, þar á meðal hundruð íranskra mótmælenda. Trump segir Soleimani hafa ráðist á bandaríska sendiráðið og verið með fleiri árásir í bígerð.

Þá skrifar Trump: „Íran hefur ekki verið neitt nema vandamál í mörg ár. Þetta er viðvörun um að ef Íranir ráðast að Bandaríkjamönnum, eða bandarískum mannvirkjum, þá erum við með 52 írönsk skotmörk í sigtinu," og segir töluna vísun í 52 bandaríska gísla sem Íranir tóku á sínum tíma. Nokkur skotmarkanna segir Trump vera mjög mikilvæg Írönum og íranskri menningu. Hann segir árásirnar eiga eftir að vera þungar og standa stutt yfir, og Bandaríkin líði ekki fleiri hótanir.