Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

500 tonn af eldisfiski drepist í sjókvíum Arnarlax

16.02.2020 - 15:15
Arnarlax, Laxeldi Sjókvíar, Fiskeldi, Arnarborg, Iðnaður, Tálknafjörður. Dróni.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Vart hefur verið við mikinn laxadauða í sjókvíaeldi Arnarlax á Vestfjörðum og talið að um 500 tonn af laxi hafi drepist í kvíum fyrirtækisins. Eitt fullkomnasta slátrunarskip heims er nú á Bíldudal og mun aðstoða við að koma laxinum í vinnslu í landi. Stjórnarformaður Arnarlax segir að laxadauðinn nú sé innan marka sem fyrirtækið gerði ráð fyrir um afföll.

Stundin hefur fjallað töluvert um málið síðustu daga. Á vef Arnarlax kemur fram að norska sláturskipið Norwegian Gannet hafi verið fengið á svæðið til að auka afkastagetu í vinnslunni á Bíldudal til þess að hámarka gæði afurða. Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, segir í samtali við fréttastofu að um 500 tonn hafi drepist í kvíum í Hringsdal í Arnarfirði, sem er heldur meira en hefur verið á þessum árstíma. Stefnt er að því að norska skipið hefjist handa á næstu dögum og búið verði að slátra fyrir lok febrúar.

Kjartan segir að veðrið og langvarandi lægðagangur hafi haft töluverð áhrif á sjókvíarnar, sem eru á sífelldri hreyfingu í firðinum. Við kólnandi hitastig sjávar fer laxinn neðar í kvíarnar og nuddast oft utan í netin. Við minnstu viðkomu geta myndast sár sem gerir það að verkum að fiskurinn missir hreistur og drepst að lokum. 

Komið í veg fyrir alvarlegt umhverfisslys

Aðspurður hvort svona mikill laxadauði geti dregið sjókvíarnar niður með tilheyrandi umhverfisslysi segir Kjartan að fyrirtækið telji ekki mikla hættu hafa verið á slíku. Strax hafi verið brugðist við og komið í veg fyrir slíkt með því að auka afkastagetuna með fleiri sláturskipum og skipum sem fjarlægja afföll í kvíum.

Samkvæmt framleiðsluáætlun Arnarlax mun fyrirtækið slátra um tíu þúsund tonnum af eldislaxi árið 2020 og inni í þeim tölum er gert ráð fyrir afföllum. Kjartan segir fyrirtækið halda Matvælastofnun upplýstri um stöðu mála, en ekki sé talin ástæða til þess að breyta áætlunum um uppskeru í ár þrátt fyrir þessi miklu afföll nú. Laxadauðinn nú sé enn innan marka sem sett voru og því ekki hægt að tala um tjón. 

Auk norska skipsins Norwegian Gannet hafa nótnaskipið Sighvatur Bjarnason frá Vestmannaeyjum og brunnbáturinn Akvaprins verið fengin á svæðið til þess að flytja fisk úr kvíum og til vinnslu á Bíldudal. Loks er hann unnin í mjöl og loks í dýrafóður.

Munu draga lærdóm af stöðunni

Sýnir það alvarleika stöðunnar að þetta norska sláturskip var fengið á staðinn?

„Það að fá Akvaprins, Gannet og Sighvat Bjarnason á staðinn sýnir að við viljum taka þetta föstum tökum. Við teljum að okkar aðgerðaráætlun hafi gengið eftir hingað til,“ segir Kjartan. 

Aðspurður hvort Arnarlax muni eitthvað breyta verklagi segir Kjartan að eldið sé almennt að þróast hratt á Íslandi eins og sjá megi til að mynda af skipakosti í þessu verkefni. Fyrirtækið muni draga lærdóm af stöðunni sem upp er komin, bæði hvað varðar eldi í sjó en einnig vinnslu á landi. Þessi miklu afföll sýni mikilvægi þess að hafa umfram afkastagetu til staðar.