Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

500 mkr í nýja meðferðarstofnun fyrir börn

26.03.2017 - 19:18
Mynd: RÚV / RÚV
Félagsmálaráðherra segir að hálfum milljarði króna verði varið til að reisa meðferðarheimili fyrir börn. Hann vonar að með því verði unnt að hjálpa þeim hópi barna sem eru í harðri fíkniefnaneyslu. Forstjóri Barnaverndarstofu sagði í fréttum RÚV í gær að árum saman hefði verið kallað eftir slíkri stofnun. Þorsteinn Víglundsson félagsmálaráðherra segir að þessu ákalli verði svarað.

Þau börn sem eru í fíkniefnaneyslu nota harðari fíkniefni en áður. Forstjóri Barnaverndarstofu lýsti í gær miklum áhyggjum að þeim börnum sem sprauta sig enda sé það lífshættulegt. Þá glími börn, sem eru fíklar, oft við flókinn og erfiðan vanda. Þau séu oft félagslega einangruð og geðheilsa þeirra sé slæm. Barnaverndarstofa hafi árum saman óskað eftir því við félagsmálaráðherra að sett verði á laggirnar meðferðarstofnun á höfuðborgarsvæðinu. Félagsmálaráðherra segir að leitað hafi verið að notuðu húsnæði undir meðferðarstofnun. 

„Sem bar ekki árangur. Þess vegna var tekin ákvörðun um að beina því til Framkvæmdasýslunnar að hefja undirbúning byggingar. Það er búið að trygga fjármagn fyrir þessa stofnun og við munum þar af leiðandi ráðast í útboð og hönnun á henni eins fljótt og auðið er,“ segir Þorsteinn. 

Hann segir að leitað verði að lóð undir bygginguna en getur ekki sagt til um hvenær unnt verði að hefja framkvæmdir. „Það þarf þá auðvitað að ljúka hönnun fyrst en ég hefði nú haldið að það ætti að vera hægt að ganga hratt og örugglega til verks í þessu,“ segir Þorsteinn.

Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir stofnfé í meðferðarstofnunina og í ríkisfjármálaáætlun sé búið að tryggja rekstrarfé. „Þetta er nú umtalsvert fé. Ég held að það sé gert ráð fyrir að bygging slíkrar stofnunar kosti hátt í 500 milljónir og árlegur rekstrarkostnaður verði um það bil 150 milljónir hið minnsta,“ segir Þorsteinn. 

Hann fagnar þeim árangri sem hafi náðst því dregið hefur úr vímuefnanotkun barna þó svo að þau sem eru fíklar séu í harðari neyslu en áður. „Ég bind vonir við það að með því að tryggja þetta meðferðarheimili því til viðbótar séum við komin með þau helstu úrræði sem við þurfum til að takast á við þennan mikla vanda,“ segir Þorsteinn.