Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

50 grindhvalir strönduðu á Löngufjörum

18.07.2019 - 18:03
Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd
50 grindhvalir strönduðu á Löngufjörum á Vesturlandi. Bandaríkjamaðurinn Greta Carlson náði myndskeiði af hvölunum eftir hádegi í dag þar sem þeir lágu í fjörunni. Hún var ásamt fleiri ferðamönnum í þyrluflugi með ferðaþjónustufyrirtækinu Reykjavík Helicopters þegar þau komu að hvölunum. Greta segir að þeir hafi allir verið dauðir þegar þau komu á vettvang, þetta hafi ekki verið fögur sjón. Lögreglan í Stykkishólmi staðfestir að henni hafi borist ábending um atvikið.

Carlson segir að þau hafi aldrei séð neitt þessu líkt. Rifa hefði komið á nokkra hvalaskrokkana. Hún hafi viljað ná myndum af atvikinu svo mögulega yrði hægt að koma í veg fyrir að svona kæmi fyrir aftur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Greta Carlson - RUV

Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávarlíffræðingur segir að það geti verið fjölmargar ástæður fyrir að hvalir villist inn á háskaleg svæði. Grindhvalir séu hópdýr með sterk félagstengsl og yfirgefi félaga sína ekki svo glatt.

Hún segir að sterkir sjávarfallsstraumar séu á þessu svæði og botninn þannig að erfiðara er fyrir dýrin að ná aftur til sjávar. Endurkast hljóðs sé lélegt á svæðinu, en grindhvalir nýti hljóð til þess að rata. Svo falli frá og þeir eru þá strandaglópar þarna. 

Einnig verður rætt við Eddu í kvöldfréttum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
 Mynd: Greta Carlson - RUV
Katrín Ásmundsdóttir
dagskrárgerðarmaður