Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

50 ár síðan skófar myndaðist á tunglinu

Mynd: EPA / NASA / HO

50 ár síðan skófar myndaðist á tunglinu

19.07.2019 - 14:57

Höfundar

Í dag, 20. júní, eru 50 ár liðin frá því að Neil Armstrong tók lítið skref sem reyndist vera risastökk fyrir mannkyn eins og hann sagði sjálfur. Ný íslensk heimildarmynd segir frá þessum atburði frá óvæntu sjónarhorni.

Mikið hefur verið ort um tunglið, af því teiknaðar ótal myndir, það hefur verið lofsungið, gólað á það, það talið búa yfir miklum mætti og jafnvel vera úr osti. Tunglið hefur verið sakað um að stjórna geðslagi fólks sem sumt hvert breytist, þjóðsögum samkvæmt, í varúlfa þegar það er fullt.

Nú eru fimmtíu ár síðan maðurinn gekk fyrst á tunglinu og virti fyrir sér lönd og höf á jörðinni úr fjarska. Í tilefni af afmæli tungllendingarinnar verður máninn heiðraður í Bíó Paradís í kvöld þar sem glæný íslensk heimildarmynd um tunglfarana verður frumsýnd, Af jörðu ertu kominn. Boðið verður upp á rauðvín frá síðasta manninum sem gekk á tunglinu og hafragraut til heiðurs Alla Nalla úr bók tunglaðdáandans Vilborgar Dagbjartsdóttur sem er einn af viðmælendum myndarinnar. Myndin verður einnig frumsýnd á sama tíma, kl. 19.45, á RÚV.

Margt líkt með Íslandi og tunglinu

Örlygur Hnefill Örlygsson, sem starfrækir Könnunarsafnið á Húsavík, er höfundur myndarinnar ásamt Rafnari Orra Gunnarssyni. Í myndinni er meðal annars rætt við sjálfa tunglfarana og tengingu tunglferðarinnar við Ísland. Geimfararnir æfðu sig nefnilega hér á landi fyrir ferðalagið og Ísland hefur síðan átt stað í hjarta þeirra. Þjálfun geimfaranna fór að miklu leyti fram í kringum Öskju og á Reykjanesi. „Það eru svæði á Íslandi sem eru nokkuð lík tunglinu en hér er líka fjölbreytt jarðfræði. Það þarf ekki að fara langt til að tala um reynslu sína af Íslandi,“ útskýrir Örlygur Hnefill.

Einnig eru í myndinni viðtöl við fólk úr öllum áttum og ólíka tengingu þess við tunglið, aðstandendur tunglfaranna og listamenn sem hafa gert tunglið að viðfangsefni sínu í listsköpun. 

Ólíklegt að ráðist verði í tunglferðir í bili

„Tunglið hefur vakað yfir okkur frá upphafi mannkyns og miklu lengur og það er skiljanlegt að velta þessum síbreytilega hnetti fyrir sér. Stundum er það lítið, stundum er það stórt,“ segir Örlygur sposkur. „Í myndinni blöndum við saman ljóðrænni nálgun en tölum líka við einstaklinga sem fengu það ótrúlega tækifæri að ganga á tunglinu.“ 

En ætli stefnt sé að því að senda fleira fólk til tunglsins í bráð? „NASA hefur tilkynnt tunglferðir á nokkurra ára fresti en það er rándýrt að gera það,“ segir Örlygur efins. „Á sínum tíma fór fólk náttúrulega í afar hentugu pólitísku landslagi.“ 

Af jörðu ertu kominn verður frumsýnd í Bíó Paradís og á RÚV í kvöldklukkan 19.45.

Rætt var við Örlyg Hnefil og Óskar Andra Ólafsson í Morgunútvarpinu á Rás 2 og má hlýða á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Minntust tunglferðar með þúsundum eldflauga

Tækni og vísindi

Tunglleiðangur kostar 2.500 - 3.750 milljarða

Erlent

Borgarstjóri segir af sér eftir heimildarmynd

Kvikmyndir

Skrifar sjálfa sig inn í baráttusögu svartra