Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

50 ár frá tungllendingunni

20.07.2019 - 08:06
Mynd: EPA / NASA / HO
Í dag eru 50 ár síðan Bandaríkjamennirnir Neil Armstrong og Buzz Aldrin lentu tunglfarinu Erninum á yfirborði tunglsins klukkan 20.17 að íslenskum tíma, fyrstir manna, eftir langa ferð. Ríkisútvarpið lýsti fyrstu skrefum manns á tunglinu nóttina á eftir beint á sínum tíma.

Hægt er að hlusta á lýsingu þeirra Hjálmars Sveinssonar verkfræðings og Páls Theódórssonar eðlisfræðings af fyrstu skrefum geimfaranna neðst í færslunni.

Leiðangurinn bar nafnið Apollo 11 og bandaríska geimferðastofnunin NASA skaut farinu á loft frá Kennedy-geimferðastöðinni í Flórída 16. júlí. Talið er að um milljón manna hafi fylgst með eldflauginni takast á loft. Þetta var fimmti Apollo-leiðangurinn þar sem menn voru með í för.

Hér má fylgjast með för Apollo 11 í rauntíma.

Mynd með færslu
 Mynd: NASA

Armstrong steig fyrstur á yfirborðið um þrjúleytið nóttina eftir. Á meðan flaug Michael Collins stjórnhylki geimfarsins á sporbraut um tunglið.

Þeir Armstrong og Aldrin voru um tvo tíma og korter saman á yfirborði tunglsins og söfnuðu 21,5 kílóum af efni af yfirborðinu sem flutt var aftur til jarðar. Alls dvöldu þeir í 21 klukkustund og 31 mínútu á tunglinu á svæði sem kallað er Friðarhafið.

Fyrstu skrefum Armstrongs á tunglinu, fyrstu skrefum manns á öðrum hnetti, var sjónvarpað um allan heim og talið er að meira en hálfur milljarður hafi fylgst með þessum merka atburði. Við það tækifæri lét Armstrong ummæli falla sem lengi munu lifa: „Eitt lítið skref fyrir mann, en stórt stökk fyrir mannkynið.“

Geimfararnir þrír sneru aftur til jarðar 24. júlí og lentu heilu og höldnu í Kyrrahafi eftir rúma átta daga í geimnum.

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Steinn sem Neil Armstrong flutti til jarðarinnar frá tunglinu var sýndur í Þjóðminjasafninu.

Aðdragandi tungllendingarinnar

Með tungllendingu Bandaríkjanna lauk hinu svokallaða geimferðakapphlaupi og loforð Johns F. Kennedys Bandaríkjaforseta frá 1961, um að koma manni á tunglið og örugglega heim aftur, var efnt.

Geimferðakapphlaupið var ef til vill friðsamlegasta birtingarmynd kalda stríðsins, vígbúnaðar-, tækni- og hugmyndafræðilegra átaka Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Það átti engu að síður rætur sínar að rekja til baráttu þeirra við þróun langdrægra eldflauga fyrir kjarnavopn.

Fram að tungllendingunni höfðu Sovétmenn haft yfirhöndina, þeir voru fyrstir til að senda gervihnött á sporbaug um jörðu 4. október 1957 og bar hann nafnið Spútnik 1. Sovétmaðurinn Yuri Gagarin var fyrsti maðurinn sem fór á sporbraut í kringum jörðina 12. apríl 1961 og landa hans, Valentina Tereshkova, varð fyrst kvenna til að gera slíkt hið sama 16. júní tveimur árum síðar.

Bandaríkin voru þó ekki lengi að svara geimferð Gagarins og Alan Shepard fór fyrstur Bandaríkjamanna út í geim 5. maí 1961. Honum tókst ekki að fara á sporbraut kringum jörðina en hafði það fram yfir Gagarin að hann hafði sjálfur stjórn á afstöðu geimfars síns en það hafði Sovétmanninum ekki tekist. John Glenn varð fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem komst á sporbraut um jörðina 20. febrúar 1962.

Síðan skiptust Sovétríkin og Bandaríkin á um að verða fyrst til að ná ýmsum áföngum í geimferðum en Bandaríkin veittu banahöggið og unnu kapphlaupið með því að lenda mönnuðu fari á tunglinu og koma mönnunum heim aftur.

Tungllendingin í íslenskum fjölmiðlum

Eins og annars staðar vakti tungllendingin mikinn áhuga hér á landi og mikið var fjallað um aðdraganda hennar og atburðinn í íslenskum miðlum. Fyrirsögn á forsíðu Vísis 21. júlí var hnitmiðuð; „Það tókst!“. Tíminn var ljóðrænni í fyrirsögn á forsíðu daginn eftir, „Maðurinn hefur stigið fæti á mánans grund“.

Mynd með færslu
 Mynd: Tímarit.is
Mynd með færslu
 Mynd: Tímarit.is

Í Vísi var rætt við fjóra menn, þá Guðmund Sigvaldason jarðeðlisfræðing, Kristján Guðlaugsson stjórnarformann Loftleiða, Þór Hafliðason svifflugskappa og Hjálmar Sveinsson verkfræðing um hvað hefði verið þeim efst í huga er Armstrong steig á tunglið. Guðmundur hafði mestar áhyggjur af heimferðinni en sagði ljóst að þetta væri stórmerkur viðburður. Kristján sagði tungllendinguna marka tímamót í mannkynssögunni og Þór taldi að það væri eflaust ólýsanlegt að standa á tunglinu með „jörðina hangandi yfir sér“.

Hjálmar var þó ekki jafn hástemmdur og hinir þrír, ekkert sérstakt var honum efst í huga við fyrstu skref Armstrongs á tunglinu. „Við erum búin að fylgjast svo náið með þessu, stig af stigi, að mér virtist það hafa verið eðlilegur hlutur að geimfararnir næðu tilsettu marki.“

RÚV lýsti beint frá fyrstu skrefum Armstrongs

Hjálmar Sveinsson verkfræðingur og Páll Theódórsson eðlisfræðingur lýstu lendingunni og fyrstu skrefum Armstrongs í Ríkisútvarpinu. Hér fylgir brot úr lýsingu þeirra félaga á þessum merka atburði:

„Nú eru aðeins 11 þrep sem skilja á milli Armstrongs og yfirborðs tunglsins. Þegar hann hefur farið niður fimm þrep, þá mun hann kippa í snúru, sem opnar hlífarnar fyrir sjónvarpsmyndavélinni, sem síðan getur sjónvarpað ferð hans niður síðustu þrepin beint til jarðar en þar munu um það bil fimm hundruð milljónir manna fylgjast með...Nú eru fyrstu sjónvarpsmyndirnar að berast til jarðar og þeir segja að myndirnar séu skýrar, góð lýsing og góð skerpa. Það hlýtur að vera stórfengleg sjón að geta fylgst með þessu...Nú er hann alveg kominn að því að stíga fæti sínum á tunglið, hægri fæti.

HANN ER KOMINN NIÐUR og hann segir, að yfirborðið sé fremur þétt og hann geti sparkað upp þunnu lagi. Hann stendur nú á yfirborðinu og lýsir nú fyrstu áhrifum sem hann verður fyrir. Fyrsti maðurinn sem stígur fæti sínum á yfirborð tunglsins, Neil Armstrong. Hann segir að fótspor hans sjáist greinilega á yfirborðinu. Hann segist ekki eiga í neinum erfiðleikum með að hreyfa sig, sé auðveldara en við eftirlíkingu þyngdarsvips tunglsins á jörðu, enginn vandi að hreyfa sig. Nú er hann farinn að virða betur fyrir sér umhverfið og segir að yfirborðið sé mjög slétt þar sem hann stendur. Einni stórri spurningu hefur þegar verið svarað, maðurinn virðist geta hreyft sig á tunglinu án teljandi erfiðleika...Þetta virðist allt ætla að ganga ótrúlega vel...“

Mynd: Alþýðublaðið / Tímarit.is
Lýsingin í heild sinni. Frá vinstri: Páll Theódórsson, Hjálmar Sveinsson og Eggert Jónsson fréttamaður.
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV