Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

50 ár frá mannskaðaveðri í Ísafjarðardjúpi

05.02.2018 - 20:30
26 manns af þremur bátum fórust í vonskuveðri í Ísafjarðardjúpi fyrir fimmtíu árum. Þeirra sem fórust var minnst um borð í varðskipinu Óðni við Reykjavíkurhöfn í dag en áhöfn varðskipsins vann björgunarafrek í hamförunum.

Ísing olli vandræðum

4. febrúar 1968 skall á aftakaveður í Ísfjarðardjúpi. „Á þessum tíma eru 22 togarar sem eru að slást við ísingu í mínus einni gráðu og fárviðri inní Ísafjarðardjúpi. Ísingin hleðst svo mikið upp að þeir þurfa að berja hana af til þess að skipin sökkvi ekki,“ segir Óttar Sveinsson sem skrifaði sögu atburðanna við Ísafjarðardjúp, Útkall í Djúpinu.

Sex manns fórust á Heiðrúnu II

Ekki tókst að koma vélbátnum Heiðrúnu II frá Bolungarvík í var en sex manns fórust með bátnum, þar af faðir og tveir synir. Þá fórst breski togarinn Ross Cleveland. Á honum var tuttugu manna áhöfn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV Grafík - timarit.is

 

Minningarsamkoma í varðskipinu Óðni

Þeirra sem fórust var minnst um borð í Óðni við Reykjavíkurhöfn í dag sem og björgunarafreks áhafnar Óðins sem bjargaði með ævintýralegum hætti átján manns af togaranum Notts County sem strandaði þessa sömu nótt við Snæfjallaströnd. „Þeir löggðu sig í gríðarlega hættu, svo það er ekki spurning að þarna var gríðarlegt þrekvirki unnið,“ segir Óttar.

Bjargaðist á undraverðan hátt

Atburðirnir vöktu mikla athygli út fyrir landssteinana og ekki síst vegna lífsbjargar eins skipverja Ross Cleveland, Harrys Eddom. „Allur umheimurinn taldi að hann væri látinn eins og allir hans félagar, en hann var á lífi. Sem kom mjög á óvart,“ segir Óttar.

Fann Harry Eddom

Harry var meðal þriggja skipverja sem komust um borð í björgunarbát sem rak í fleiri klukkustundir áður en hann rak á land í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Þá voru félagar hans látnir úr kulda og vosbúð. Harry hélt gangandi af stað eftir grýttri fjörunni. Yfir þrjátíu klukkustundum eftir að skipið fórst hélt 14 ára smalastrákur út að reka fé á beit í botni fjarðarins. „Ég er að reka rollurnar hérna fyrir neðan. Hann stendur hérna við hlerann. Hundarnir finna hann og þá sér hann mig og kallar. Akkúrat þegar ég var að koma í slóðina þar sem sporin hans voru,“ segir Jón Guðmann Guðmundsson, sem fann Harry Eddom í febrúar 1968 þar sem hann hafði fundið skjól við mannlaust sumarhús. „Ég var búinn að heyra í útvarpinu að það væri verið að leita að tveimur bátum, bátnum úr Bolungarvík og breska togaranum. Svo þegar hann talaði bara útlensku þá vissi ég að hann væri af togaranum,“ segir Guðmann.

Fjölmiðlafár

Guðmann fylgdi Harry heim á bæ þar sem hann var háttaður niður í rúm og gefið að borða. Hann var svo fluttur til Ísafjarðar. „Þá byrjar í raun fjölmiðlafár áratugarins,“ segir Óttar Sveinsson. Um fjörtíu breskir blaðamenn komu til landsins, en þeir höfðu einkum áhuga á því að fylgjast með fundum Harry og konu hans Ritu sem kom til landsins á vegum The Sun. The Sun hafði keypt einkarétt af fyrsta fundi þeirra eftir skipsskaðann. Það þótti einsdæmi að Harry Eddom hefði komist lífs af. - „Þótti hann hafa sýnt einstæða karlmennsku og það ganga kraftaverki næst að hann komst lífs af,“ segir í frétt þess tíma.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV