Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

5 ný smit greind í dag - þar af 3 innanlands

07.03.2020 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Í dag hafa greinst fimm ný COVID-19 smit. Þrjú þeirra eru innlend en þau má rekja til einstaklinga sem voru á hættusvæðum erlendis. Hinir tveir sýktust erlendis. Fjöldi smitaðra er nú orðinn 50. Þar af eru sjö sem smituðust hér á Íslandi.

Tveir eru á þrítugsaldri, einn á fertugsaldri, einn á fimmtugsaldri og einn á áttræðisaldri. Allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

484 sýni verið greind - 400 í sóttkví

Nú hafa samtals hafa 484 sýni verið greind þar af 42 í dag. Á fjórða hundrað einstaklinga voru í sóttkví á hádegi í dag. Í sóttvarnarhúsi á Rauðarárstíg dvelja tveir erlendir ríkisborgarar. Sýni var tekið úr öðrum þeirra í dag og reyndist það neikvætt. Hinn einstaklingurinn sýnir engin einkenni COVID-19 sjúkdómsins.

Landlæknisembættið gaf í dag út nýjar leiðbeiningar fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu gagnvart veirunni.  Fólk er hvatt til að kynna sér þær vel og upplýsa ástvini um þær varúðarráðstafnir sem mælt er með þar. 

Hér má nálgast leiðbeiningar landlæknis fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri sýkingu COVID-19.