
Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
5 ný smit greind í dag - þar af 3 innanlands
07.03.2020 - 16:03
Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Í dag hafa greinst fimm ný COVID-19 smit. Þrjú þeirra eru innlend en þau má rekja til einstaklinga sem voru á hættusvæðum erlendis. Hinir tveir sýktust erlendis. Fjöldi smitaðra er nú orðinn 50. Þar af eru sjö sem smituðust hér á Íslandi.
Tveir eru á þrítugsaldri, einn á fertugsaldri, einn á fimmtugsaldri og einn á áttræðisaldri. Allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu.
484 sýni verið greind - 400 í sóttkví
Nú hafa samtals hafa 484 sýni verið greind þar af 42 í dag. Á fjórða hundrað einstaklinga voru í sóttkví á hádegi í dag. Í sóttvarnarhúsi á Rauðarárstíg dvelja tveir erlendir ríkisborgarar. Sýni var tekið úr öðrum þeirra í dag og reyndist það neikvætt. Hinn einstaklingurinn sýnir engin einkenni COVID-19 sjúkdómsins.
Landlæknisembættið gaf í dag út nýjar leiðbeiningar fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu gagnvart veirunni. Fólk er hvatt til að kynna sér þær vel og upplýsa ástvini um þær varúðarráðstafnir sem mælt er með þar.