Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

49 dóu úr COVID-19 á Ítalíu síðasta sólarhring

07.03.2020 - 01:56
Erlent · Heilbrigðismál · Asía · COVID-19 · Holland · Íran · Ítalía · Spánn · Suður-Kórea · Evrópa
epa08275063 A view of Saint Peter's Square, Vatican City, 06 March 2020. According to reports on 06 March, the Vatican has confirmed its first coronavirus case after a patient tested positive for COVID-19 at a clinic within the city-state. The number of Coronavirus cases in Italy, the center of Europe's COVID-19 outbreak, was at 3,858 cases by 06 March with a death toll of 148 people while 414 people have recovered since the outbreak.  EPA-EFE/FABIO FRUSTACI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Ítölsk yfirvöld greindu frá því í kvöld að 49 manns hefðu látist síðasta sólarhringinn úr COVID-19 veikinni, fleiri en nokkru sinni á einum sólarhring. Alls hafa þá 197 fallið í valinn í COVID-19 faraldrinum á Ítalíu og rúmlega 4.600 smit verið staðfest. Hvergi utan Kína hafa svo mörg dauðsföll verið rakin til kórónaveirunnar sem veldur þessari skæðu pest og dánartíðnin er hvergi hærri, eða 4,25 prósent.

 

Í tilkynningu yfirvalda kom reyndar fram að ekki væri hægt að fullyrða með 100 prósenta vissu, að öll dauðsföll síðasta sólarhrings væru af völdum COVID-19 þar sem endanleg niðurstaða krufninga lægi ekki fyrir. Allt benti þó til þess að sú væri raunin. Þá er einnig talið næsta öruggt að fjöldi smitaðra sé töluvert meiri en vitað er um, og dánartíðnin þar af leiðandi lægri sem því nemur.

Heilbrigðisstofnun Ítalíu greinir frá því að meðalaldur hinna látnu er 81 ár og að mikill meirihluti þeirra hafi átt við aðra, undirliggjandi sjúkdóma að glíma. Þá eru nær þrír af hverjum fjórum hinna látnu karlmenn. 

Utan Kína eru flest smituð í S-Kóreu, Íran og Ítalíu

Suður-Kórea er það land þar sem flest tilfelli hafa greinst utan Kína, rúmlega 6.000 talsins. Þar er dánartíðnin mun lægri en á Ítalíu; dauðsföllin eru orðin 44 og dánartíðnin því 0,7 prósent.

Írönsk stjórnvöld greindu frá því að 17 hefðu dáið úr COVID-19 síðasta sólarhringinn. Alls hafa þá 124 dáið úr COVID-19, eða um 2,6 prósent þeirra 4.750 sem greinst hafa með smit.

Frá Spáni bárust þær fréttir í kvöld að þar í landi hefði þetta nýjasta afbrigði bráðrar, alvarlegrar lungnabólgu af völdum kórónaveiru, heimtað átta mannslíf til þessa. Um 400 smit hafa verið staðfest á Spáni. Loks greindu heilbrigðisyfirvöld í Hollandi frá því að þar hefði í dag orðið fyrsta dauðsfallið, sem rekja má til COVID-19.