Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

46 friðaðar tréholur í Ófeigsfirði

Mynd með færslu
Trjáhola í Ófeigsfirði Mynd: Lovísa Ásbjörnsdóttir - Náttúrufræðistofnun Íslands
46 friðaðar tréholur, eða trjábolaför, fundust í Ófeigsfirði við frumrannsókn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Rannsóknin var gerð á hluta af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði vegna Hvalárvirkjunar. Full ástæða sé til að skoða svæðið betur með tilliti til trjáhola.

Trjábolaför eru steingervingar sem eru verndaðir með lögum. Í tilkynningu á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að margar fallegar trjáholur hafi fundist á svæðinu. Alls voru skráðar 46 holur í Strandarfjöllum við Hvalá. Til viðbótar voru 29 skráningar um óviss för. Holurnar hafi verið afar breytilegar að stærð og gerð. 

Fréttastofa óskaði eftir svörum frá Umhverfisstofnun um hvort og þá hvaða áhrif niðurstöður rannsóknarinnar gætu haft á fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði í Árneshreppi. Þau svör fengust frá Umhverfisstofnun að viðbragða frá þeim megi að öllum líkindum vænta í næstu viku. 

Tillögur Náttúrufræðistofnunar um verndun Drangajökulssvæðisins eru nú í ferli hjá Umhverfisstofnun. Náttúrufræðistofnun telur svæðið hafa hátt vísindalegt gildi, sérstaklega vegna jöklunarsögu, fornloftslagssögu og umhverfissögu landsins, segir á vef stofnunarinnar. Svæðið sé órannsakað.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar, sem fréttastofa greindi frá í janúar, við deiliskipulagstillögu Árneshrepps, sem meðal annars snýr að framkvæmdum vegna Hvalárvirkjunar, segir að stofnunin telji að framkvæmdirnar valdi óafturkræfu raski. Náttúrufræðistofnun var meðal tólf stofnana, félagasamtaka og einstaklinga sem gerðu athugasemdir við deiliskipulagið. Allir hreppsnefndarfulltrúar eru hlynntir virkjunarframkvæmdum í Hvalá.

Fréttin hefur verið uppfærð.