Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

45 prósenta launahækkun forstjóra og stjórnar

27.02.2018 - 06:45
Mynd með færslu
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Mynd: RÚV
Laun stjórnarmanna og forstjóra Landsvirkjunar hækkuðu um 45 prósent á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi Landsvirkjunar sem birtur var í síðustu viku. Laun fimm framkvæmdastjóra og aðstoðarforstjóra hækkuðu um 24 prósent.

Upplýsingar um laun og hlunnindi stjórnar móðurfélags Landsvirkjunar og tveggja dótturfélaga, forstjóra Landsvirkjunar og helstu stjórnenda fyrirtækisins og dótturfélaga birtast í ársreikningnum. Þar eru allar tölur í dollurum. Samkvæmt því hafa laun stjórnarmanna og forstjóra hækkað um 49 prósent milli ára en þegar tekið er tillit til sterkara gengis krónunnar má gera ráð fyrir að hækkunin nemi 45 prósentum í íslenskum krónum. Með sama hætti hækkuðu laun stjórnarmanna í tveimur dótturfélögum um 40 prósent og laun fimm framkvæmdastjóra og aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar um 24 prósent. 

Stjórnarlaun hækkuðu úr 12,7 milljónum króna í nítján milljónir á milli ára, samkvæmt framsetningu ársreikningsins. Laun forstjóra fóru úr 1,7 milljón í 2,5 milljónir á mánuði. Samanlögð laun fimm framkvæmdastjóra og aðstoðarforstjóra fóru úr 136 milljónum í 171 milljón, eða að meðaltali úr 1,9 milljóna króna mánaðarlaunum í 2,4 milljónir.

Landsvirkjun hagnaðist um 11,2 milljarða króna í fyrra samanborið við 6,9 milljarða króna árið 2016. Nettóskuldir hækkuðu um 4,2 prósent milli ára og námu 212,4 milljörðum króna í lok síðasta árs. Þá var handbært fé 28,9 milljarðar króna, 20,9 prósentum hærra en árið áður.

Viðbót: Landsvirkjun segir að laun stjórnar og forstjóra hafi ekki hækkað eins mikið og ráða megi af fréttinni. Þannig megi að meðaltali rekja þrettán prósent af hækkun launakostnaðar fyrirtækisins til gengisþróunar þar sem laun séu greidd í krónum en fyrirtækið gert upp í Bandaríkjadölum. Samkvæmt þessu hafi laun og hlunnindi forstjóra hækkað úr tveimur milljónum á mánuði í 2,7 milljónir, eða um 32 prósent. Þá hækkun megi rekja til launalækkunar forstjora árið 2012. Hún hafi leitt til þess að hann varð launalægri en framkvæmdastjórar hjá fyrirtækinu. Þá hafi laun stjórnarmanna hækkað um fimm prósent milli ára en samanlagðar greiðslur til stjórnarmanna hafi hækkað meira þar sem undirnefndum stjórnar, sem stjórnarmenn sitja í, hafi fjölgað milli ára.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV