Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

40% minni velta vegna framkvæmda á Hverfisgötu

22.10.2019 - 19:43
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Kaffihúsaeigandi við Hverfisgötu í Reykjavík furðar sig á því að framkvæmdum sem hófust fyrir fimm mánuðum sé ekki lokið. Til stóð að hleypa umferð um götuna að nýju í lok ágúst. Fjörutíu prósentum minni velta var hjá kaffihúsinu í september en á sama tíma í fyrra.

Framkvæmdir hófust við Hverfisgötu milli Smiðjustígs og Ingólfsstrætis 20. maí. Samkvæmt upphaflegri áætlun átti þeim að vera lokið fyrir ágústlok. Nú tveimur mánuðum síðar standa þær enn. Þessa fimm mánuði hefur verið lokað fyrir bílaumferð og umferð gangandi eru settar skorður.

Framkvæmdirnar hafa fælt suma frá því að sækja sér þjónustu. Þannig hefur eldra fólk veigrað sér við því að fara í Þjóðleikhúsið og sérstakar ráðstafanir þarf að gera fyrir fatlaða. Minni velta er einnig í verslunum.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

„Framkvæmdirnar hafa sífellt meiri áhrif eftir því sem tíminn líður,“ segir Ásmundur Helgason, eigandi kaffihússins Gráa kattarins.

Og þetta sér Ásmundur á kúnnahópnum á kaffihúsinu.

Hversu miklu munar á viðskiptum í september síðastliðnum miðað við september í fyrra?

„Það er um 40% minni velta núna miðað við sama tíma í fyrra,“ segir Ásmundur.

Hversu lengi getur þú haldið áfram með minnkandi veltu?

„Ef þetta heldur áfram svona út á árið þá er ég kominn alveg á hnén,“ segir Ásmundur.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Og þú sérð enga skýringu nema þessar framkvæmdir?

„Það er náttúrulega kannski aðeins færri ferðamenn. En ég hef ekki heyrt þessar tölur hjá öðrum veitingahúsum, að það sé minnkun milli ára. Og ég finn það líka hjá öðrum rekstraraðilum við þennan spotta hérna á Hverfisgötunni. Þau eru öll með gríðarlega minnkun milli ára og það má rekja til þess að fólk kemst ekki til þeirra,“ segir Ásmundur.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

Hefurðu eitthvað kvartað við borgina?

„Ég er búinn að kvarta margoft við borgina. Fyrir það fyrsta er útboðið alltof seint í gangi. Tilboð eru opnuð í lok apríl og 2-3 vikum seinna á verktakinn að vera tilbúinn með mannskap og byrja. Það sýnir sig líka í því að hérna svo dögum og vikum skiptir voru mjög fáir að vinna hérna,“ segir Ásmundur.

Borgarstjóri vildi ekki veita fréttastofu viðtal um málið í dag. Formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar sagði við RÚV í dag að til standi að boða rekstrarðila á samráðsfund.

„Sem ég hef ekki enn þá verið boðaður á. Ég veit ekki hvaða samráð á að vera. Af hverju drífa þeir sig ekki í að klára þetta?,“ segir Ásmundur.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV