Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

40% minni losun gróðurhúsalofttegunda

26.09.2015 - 18:13
Sigmundur á leiðtogafundinum í dag.
 Mynd: EPA
Íslensk stjórnvöld ætla að beita sér fyrir því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030. Þetta kemur fram í yfirlýsingu forsætisráðherra, sem flutt var síðdegis á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um ný heimsmarkmið um sjálfbæra þróun fyrir tímabilið 2015 til 2030.

Í yfirlýsingu Sigmundar Davíðs er áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fagnað, en áætlunin var samþykkt af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna í gær. Markmiðið með áætluninni er að útrýma fátækt í heiminum fyrir 2030, vernda umhverfið, og stuðla að efnahagslegri velmegun og félagslegri þróun. Í yfirlýsingu Sigmundar kemur fram að Ísland ætli að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda um 40% á næstu fimmtán árum.

Þá kemur einnig fram að lélegt aðgengi að sjálfbærri orku sé ein helsta ástæða fátæktar í heiminum. Á Íslandi sé mikið af endurnýtanlegum orkugjöfum og að Ísland muni áfram styðja dyggilega við bakið á þeim þróunarríkjum sem hyggja á gerð jarðvarmavirkjana. Þannig sé á sama tíma stuðlað að bættum lífsgæðum og hlúð að loftslaginu. Maðurinn hafi aðeins tvær leiðir til að afla sér matar. Annars vegar á landi og hins vegar á sjó. Hlúa verði að bæði sjó og landi af mikilli ábyrgð.

Sigmundur segir mikilvægt að allar þjóðir heims taki höndum saman og fylgi þeim markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett um sjálfbæra þróun á næstu fimmtán árum.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður