Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

40 íslenskar bækur þýddar á ensku

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

40 íslenskar bækur þýddar á ensku

05.11.2019 - 10:12

Höfundar

Íslensk bókaútgáfa erlendis hefur aukist. Hátt í fjörutíu bækur af allra handa tagi eru nýútkomnar eða rétt óútkomnar á ensku í Bretlandi og Bandaríkjunum.  „Þetta er stökk. Þetta er auðvitað mjög vinsæll og eftirsóttur markaður fyrir höfunda,“ segir Hrefna Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar íslenskra bókmennta var gestur Morgunvaktarinnar á Rás1.

„Fyrir höfund sem skrifar fyrir 350 þúsund lesendur. Sú tala margfaldast við að koma út erlendis, ég tala nú ekki um á svona stórum málsvæðum,“ segir Hrefna jafnframt.

Hún segir að það sé að aukast mikið að íslenskar bækur séu gefnar út á ensku í Bandaríkjunum. „Þetta hefur verið það málsvæði sem lengi hefur verið horft til en það er eins og núna sé dropinn að hola steininn.“

En hvers vegna? „Margir íslenskir höfundar hafa alþjóðlega umboðsmenn. Svo er það Miðstöð íslenskra bókmennta sem kynnir bækurnar og svo eru það þýðendur sem eru ötulir að koma bókum á framfæri,“ segir hún.

Hrefna segir jafnframt að íslenskar bókmenntir séu sérstaklega vinsælar í Frakklandi. „Þetta gengur auðvitað í bylgjum en það verður að segjast eins og er að núna er mjög góður tími fyrir íslenskar bókmenntir erlendis og kannski betri en nokkru sinni. Nema til dæmis í kringum það þegar Ísland var heiðursgestur í Frankfurt 2011. Þá voru gefnar út á Þýsku 230 bækur,“ segir Hrefna.