Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

40 ár frá síðasta þorskastríðinu

15.10.2015 - 18:59
Mynd: RÚV / RÚV
Fjörutíu ár eru liðin í dag frá því lögsaga Íslands var færð úr fimmtíu sjómílum í 200. Ísland var fyrsta Evrópulandið til að marka sér 200 mílna landhelgi.

Ákvörðun þingsins að færa út landhelgina var forsíðuefni og burðarefni flestra blaðanna þennan dag. Þó var ljóst að baráttan var þar með ekki unnin.

Í kjölfarið kom síðasta þorskastríðið við Breta. Bretar viðurkenndu ekki útfærsluna og héldu ótrauðir áfram veiðum innan landhelginnar og sendu flota herskipa á vettvang auk dráttarbáta sem virðast hafa viljandi siglt á íslensku varðskipin til að gera þau óvirk.

Á vef Landhelgisgæslunnar segir um þorskastríðið að það sem mest hafi angrað Breta voru togvíraklippur, sem Íslendingar útbjuggu og notuðu til þess að skera á veiðarfærin. Varðskipin laumuðust inn í togaraþvöguna og drógu klippurnar á eftir sér. Reyndu þá bæði togarar og verndarskip þeirra, herskip og dráttarbátar, að sigla varðskipin niður. Óvíst er hversu mikið tjón varð á íslensku varðskipunum, en oft urðu háskalegir árekstrar. Mildi þykir að ekki hafi orðið stórslys vegna þeirra. Í spilaranum hér að ofan má heyra Vilhelm G. Kristinsson, fréttamann RÚV, lýsa atburðum um borð í varðskipinu Ægi í janúar 1976. 

Bitbein á Alþingi
Um fátt var rætt eins mikið á Alþingi og útfærslu lögsögunnar. Málið var mjög umdeilt. Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Breta og það hrikti í stoðum aðildar Íslands að NATÓ. Guðmundur J. Guðmundsson sagnfræðingur skrifaði bókina Síðasta þorskastríðið um þegar landhelgin var færð í 200 mílur. Hann segir miklar deilur hafa verið um málið á þinginu, ekki einungis á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, heldur einnig innan ríkisstjórnarinnar.

Þegar lögin tóku gildi á þessum degi fyrir fjörutíu árum sagði Geir Hallgrímsson forsætisráðherra í ávarpi til þjóðarinnar lífsbjörg Íslendinga að veði.

„Við munum ekki gera neina samninga, sem ekki eru í fullu samræmi við hagsmuni okkar og annaðhvort munum við semja til sigurs eða - ef það verður hlutskipti okkar- berjast til sigurs,“ sagði Geir.

Það var þó ekki fyrr en í maí árið eftir að samningar tókust með Íslendingum og Bretum og síðasta þorskastríðinu lauk í júní það ár.

Gamlir heimsveldisdraumar Breta
Guðmundur segir þetta síðasta þorskastríð setja endapunktinn við það ferli sem byrjaði með útfærslu landhelginnar í fjórar mílur 1948. Alls voru háð fjögur þorskastríð. Guðmundur segir athyglisverðast við þetta stríð að þetta hafi verið það harðasta af þeim öllum en þó hafi verið ljóst frá upphafi hverjir voru búnir að vinna. „Það var furðulegt hversu hart Bretar gengu fram,“ segir Guðmundur. Hann segir það skrýtið í ljósi þess að þeir hafi sjálfir gefið út að þeir myndu taka sér 200 mílna landhelgi. „Ég held að þeir hafi verið með gamla heimsveldisdrauma án þess að hafa efni á því,“ segir Guðmundur.

Hann segir ljóst að breskir togarar hafi orðið fyrir gríðarlegu tjóni. Af sumum hafi öll veiðarfæri verið klippt og þeir þurft að fara tómhentir heim með laskaða báta. „Og þetta hafði gríðarmiklar afleiðingar fyrir íbúa Grimsby og Hull,“ segir Guðmundur. Við tók langvarandi atvinnuleysi þar sem margir sjómenn og fiskverkafólk í landi missti vinnuna. Guðmundur bendir á að bætur bresku ríkisstjórnarinnar vegna skaðans af þorskastríðinu hafi ekki ratað til íbúanna eða til sjómannanna, heldur hafi runnið beint í vasa stóru útgerðarfyrirtækjanna. 

Hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna gekk í gildi 1985 og þar með voru loks komnar alþjóðlegar reglur um fiskveiðilögsögu og 200 mílna efnahagslögsaga Íslendinga var samþykkt.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV