Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

40 ár frá gíslatökunni í Teheran

04.11.2019 - 15:29
Mótmælendur í Teheran í morgun. - Mynd: ASSOCIATED PRESS / AP
Í dag eru fjörutíu ár síðan íranskir stúdentar brutu sér leið inn í bandaríska sendiráðið og tóku starfsmenn og fjölskyldur þeirra í gíslingu. Fimmtíu og tveimur gíslum var ekki sleppt fyrr en 444 dögum síðar. Þúsundir manna komu saman í morgun þar sem áður var sendiráð Bandaríkjanna í Teheran, höfuðborg Írans og hrópuðu vígorð í garð Bandaríkjamanna.

Ayatollah Khomeini var nýbúinn að taka völdin í Íran eftir að keisaranum Mohammad Reza Pahlavi var steypt af stóli í febrúar 1979. Vesturveldin höfðu lengi ráðið lögum og lofum í Íran og olíuauður landsins skipti þar mestu. Á sjötta áratugnum var mikil valdabarátta milli keisarans og forsætisráðherrans Mohammad Mosaddegh sem krafðist aukinnar hlutdeildar í olíuauði landsins. Árið 1953 studdu leyniþjónustur Bandaríkjanna og Bretlands valdarán keisarans. Forsætisráðherranum var steypt af stóli og keisarinn tók sér alræðisvald með stuðningi Breta og Bandaríkjanna. 

Skálað fyrir keisaranum

Jimmy Carter, þáverandi forseti Bandaríkjanna hellti olíu á eldinn nokkrum mánuðum fyrir byltinguna með því að skála fyrir keisaranum í sjónvarpsútsendingu á gamlárskvöld 1977 og halda því fram fullum fetum að keisarinn væri elskaður og dáður af þegnum sínum. 

Satan sat að svikráðum

Khomeini tók völdin í febrúar 1979 og starfsmönnum bandaríska sendiráðsins var fækkað úr nærri eitt þúsund í sextíu. Sendiráðið lá undir stöðugu grjótkasti og venjulegu gleri í rúðum var skipt út fyrir skothelt gler. Keisarinn hafði flúið land í janúar 1979 en 22. október fékk hann að fara til Bandaríkjanna til að leita sér lækninga vegna krabbameins. Jimmy Carter og bandarísk stjórnvöld neituðu að framselja hann til Írans. Margir töldu fullvíst að Bandaríkjamenn væru að undirbúa nýtt valdarán og Khomeini talaði um Bandaríkin sem hinn mikla satan sem sæti að svikráðum við þjóðina. Nokkrum dögum síðar réðust íranskir stúdentar inn í sendiráðið og tóku starfsmenn þess og fjölskyldur þeirra. Ein af hugmyndum þeirra var að fá keisarann framseldan í skiptum fyrir gíslana. Önnur að koma í veg fyrir gagnbyltingu með stuðningi Bandaríkjanna. 

Gíslatakan sameinaði þjóðina

Gíslatakan var sjálfsprottin og átti upphaflega bara að vera tímabundin og táknræn aðgerð. Khomeini var andsnúinn henni í fyrstu en snerist fljótlega á sveif með gíslatökuhópnum. Gíslatakan sameinaði þjóðina og ný stjórnarskrá var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember sem kom á klerkaveldi í landinu. 

Guðleg forsjón og fall Jimmy Carters

Í apríl 1980 fyrirskipaði Jimmy Carter hernaðaraðgerðina Arnarkló sem átti að bjarga gíslunum. Allt fór úrskeiðis, þyrlur lentu í sandstormum og biluðu á dularfullan hátt. Einn Írani lést í aðgerðunum og átta Bandaríkjamenn fórust í þyrluslysi. Khomeini þakkaði guðlegri forsjón og vinsældir hans jukust verulega en hófsöm öfl misstu móðinn. Vinsældir Carters minnkuðu verulega og líkur á endurkjöri um haustið fóru þverrandi. Jimmy Carter samþykkti hvað eftir annað tillögur háttsettra íranskra embættismanna um lausn gíslamálsins með niðurlægjandi skilyrðum en Khomeini hafnaði öllum samningum á síðustu stundu. Ronald Reagan sigraði Jimmy Carter með fádæma yfirburðum í forsetakosningunum fjórða nóvember, nákvæmlega einu ári eftir gíslatökuna. 

Gíslunum sleppt þegar Reagan tók við

Ronald Reagan sór embættiseið tuttugasta janúar 1981. Jimmy Carter hafði vonast til þess að taka á móti gíslunum í forsetatíð sinni. Svo fór þó ekki. Gíslunum var sleppt eftir að Reagan var orðinn forseti og raunar á sömu mínútu og hann lauk innsetningaræðunni. Alls kyns samsæriskenningar eru til varðandi þá tímasetningu en það var nýkjörinn forseti Bandaríkjanna sem gat fært þjóðinni gleðitíðindin. Enginn einstakur atburður átti eins mikinn þátt í falli Jimmy Carters og gíslatakan í Teheran. Tilraunir hans til lausnar málsins reyndust árangurslausar og það  var með brostinni röddu sem fyrrverandi forseti Bandaríkjanna Jimmy Carter tilkynnti um komu gíslanna fimmtíu og tveggja.

Gíslatakan styrkti Khomeini í sessi

Sama ár og gíslunum var sleppt hófst áralangt stríð Írans og Íraks en þar studdu Bandaríkjamenn Írak gegn fornum samherjum í Íran. Gíslatakan styrkti Khomeini í sessi og andstaða við hann var brotinn á bak aftur. Algjör fjandskapur hefur ríkt milli Bandaríkjanna og Írans síðan. Bandaríkin eru hinn mikli satan og Íran er öxulveldi hins illa. Ástandið hefur sjaldan verið verra en eimitt nú sem stafar ekki síst af þeirri ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í fyrra að snúa baki við kjarnorkusamningi stórveldanna og Írans frá 2015 og innleiða nýjar refsiaðagðerðir gegn landinu. Vegna refsiaðgerðanna hefur olíuframleiðsla Írana að mestu stöðvaðst, en markmið Bandaríkjamanna með refsiaðgerðum er að reyna að knýja þá til að semja upp á nýtt. Ali Khamenei erkiklerkur, æðstur valdamanna í Íran, ítrekaði í gær að Íranar og Bandaríkjamenn væru svarnir óvinir og að ekki kæmi til greina að ræða við þá, nema að ráðamenn í Washington samþykktu kjarnorkusamninginn að nýju og afléttu refsiaðgerðum gegn Íran.

 

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV