Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

37 prósent segjast ætla að borða skötu í dag

23.12.2019 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Rúmlega þriðjungur Íslendinga, átján ára og eldri, ætla að borða skötu á Þorláksmessu í ár, samkvæmt nýrri könnun MMR. Þar sögðust 37 prósent aðspurðra ætla að borða skötu í dag, tveimur prósentustigum fleiri en í fyrra. Karlar eru áfram líklegri en konur til að borða skötu og hún er vinsælli meðal íbúa á landsbyggðinni en hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins.

MMR segir að hlutfall þeirra sem halda í skötuhefðina hafi að miklu leyti haldist óbreytt frá því að mælingar MMR á jólahefðum landsmanna hófust árið 2011.

Vinsældir skötunnar virðast meiri meðal eldri kynslóðanna en þeirra yngri því 58 prósent landsmanna 68 ára og eldri sögðust ætla í skötu í ár. Í aldurshópnum 18 til 29 ára reyndist hlutfallið vera 21 prósent.

Þá eru karlar líklegri en konur til að hafa dálæti á skötu og landsbyggðarfólk frekar en íbúar höfuðborgarsvæðisins.  44 prósent karla sögðust ætla að borða skötu en 30 prósent kvenna. 46 prósent svarenda af landsbyggðinni kváðust ætla að borða skötu á Þorláksmessu, samanborið við 32 prósent þeirra af höfuðborgarsvæðinu. 

Þegar litið er til stuðnings við stjórnmálaflokka kemur í ljós að stuðningsfólk Framsóknarflokksins reyndist líklegast allra til að hyggja á skötuát í dag, eða 58 prósent, en voru 50 prósent í fyrra. Stuðningsfólk Pírata reyndist ólíklegast, rétt eins og í fyrra, eða 24 prósent.  

Þá virðist hafa dregið úr hlutfalli skötuunnenda innan Miðflokksins frá fyrra ári, því 41 prósent stuðningsfólks Miðflokksins segist ætla að borða skötu í ár samanborið við 54 prósent í fyrra. 

Könnunin var gerð 13. til 19. desember. Þátttakendur, átján ára og eldri, voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR og var svarhlutfall 1.014 manns.