36% allra atvinnulausra af erlendum uppruna

15.06.2019 - 19:55
Mynd: RÚV / RÚV
36% allra á atvinnuleysisskrá eru af erlendum uppruna. Mikilvægt er að koma til móts við þann hóp þar sem hann gegndi lykilhlutverki í hagvextinum síðustu ár segir Henný Hinz, deildarstjóri hagdeildar ASÍ.

Atvinnuleysi hefur aukist síðustu mánuði.  Atvinnuleysi mældist 3,6% í lok maí, 0,1 prósentustigi minna en í apríl. Atvinnuleysi, þessa tvo mánuði, hefur ekki verið meira síðan 2015. Í maí í fyrra voru 4090 atvinnulaus en í maí síðastliðnum voru þau 6767, sem er rúmlega 65% hækkun.

Skráð atvinnuleysi hefur farið stighækkandi síðan í september. Þá var það 2,3%, en var hæst í apríl eða 3,7%, þegar fyrstu afleiðingar falls WOW air komu í ljós. Þá hefur þeim fjölgað sem hafa verið lengur en 12 mánuði án atvinnu.

Atvinnuleysi er yfirleitt með minna móti á sumrin, miðað við árið í heild. Því má leiða líkur að því að atvinnuleysi eigi eftir að aukast enn frekar með haustinu segir Henný Hinz.

„Þá sjáum við hvernig fyrirtækin bregðast við minni umsvifum, sem við erum að sjá í hagkerfinu núna," segir Henný . Sömuleiðis geti það haft áhrif með hvaða hætti stjórnvöld  grípi til mótvægisaðgerða. 

Ferðaþjónustan og erlent vinnuafl breytt vinnumarkaðnum

Grundvallarbreytingar hafi orðið á íslenskum vinnumarkaði, annars vegar þensla ferðaþjónustu og hins vegar hlutdeild erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði en þeir eru um fimmtungur alls starfandi fólks. Atvinnuleysi meðal fólks af erlendum uppruna sé meira en tvöfalt meira en meðal Íslendinga. Þá eru 36% allra á atvinnuleysisskrá af erlendum uppruna.

„Við þurfum að horfa til þess með hvaða hætti við getum betur náð til þessa hóps sem hefur gengt lykilhlutverki í að skapa hagvöxt á síðustu árum," segir Henný.

„ Hvernig tryggjum við honum þjónustu og ráðgjöf þegar hann lendir í atvinnuleysi til þess að þessi hópur lendi ekki umfram aðra í langtímaatvinnuleysi," segir Henný Hinz.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi