3500 börn heim í hádeginu

03.02.2020 - 19:46
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Um eitt þúsund og átta hundruð starfsmenn Eflingar hjá Reykjavíkurborg leggja niður störf á morgun. Veruleg röskun verður á starfsemi leikskóla borgarinnar og verða um þrjú þúsund og fimm hundruð börn send heim í hádeginu.

Samninganefndir Eflingar og Reykjavíkurborgar hittust hjá Ríkissáttasemjara í morgun en engin niðurstaða fékkst. Þetta þýðir að 1.800 starfsmenn Eflingar hjá borginni leggja niður störf klukkan hálf eitt á morgun.

Áhrif verkfallanna eru víðtæk og gætir þeirra einna helst á skóla- og frístundasviði þar sem um eitt þúsund félagsmenn Eflingar starfa, flestir á leikskólum. Samkvæmt upplýsingum þaðan verða um 3.500 börn send heim í hádeginu á morgun. Fjöldinn er mismikill eftir leikskólum en áhrifin verða mest í Breiðholti.

Senda 104 börn heim

Á leikskólanum Hofi, sem 136 börn sækja, verður veruleg röskun á starfseminni. „Við þurfum að senda stóran hluta barnanna heim. Á þriðjudaginn þurfum við að senda 104 börn heim, loka þremur deildum sem sagt eftir hádegi á morgun,“ segir Stella Marteinsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri.

Næsti samningafundur verður á miðvikudaginn. Ef ekki semst þá verður sólarhringsverkfall á fimmtudaginn. Þá verður börnum á Hofi skipt upp þannig að helmingur mætir fyrir hádegi og helmingur eftir hádegi. „Það er náttúrulega enginn matur því að matráðurinn verður í verkfalli og það má alls ekki koma með nesti og við ætlum ekki að ganga í störf Eflingarstarfsmanna.“

Lágmarksþjónusta á hjúkrunarheimilum

Áhrifa verkfallanna gætir einnig á velferðarsviði en þar tókst samkomulag við Eflingu um undanþágu fyrir 245 stöðugildi til að tryggja umönnun viðkvæmustu hópanna. „Við þurfum að draga úr þrifum og þvottum og öðru slíku og sinnum bara lágmarksþjónustu með þeim mannafla sem við höfum sem eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar,“ segir Margrét Ósvaldsdóttir, forstöðumaður Seljahlíðar hjúkrunarheimilis.

Komi til sólarhringsverkfalls á fimmtudaginn verða áhrifin víðtækari. „Íbúarnir fá þessa grunnþjónustu. Þeir fá lyfin sín, þeir fá mat á matmálstímum, þeim verður hjálpað fram úr sem þurfa að fara fram úr og aðstoð við það, klæða sig og annað slíkt. Við búum ekki um rúmin, tökum ekki þvottinn, það verður ekki baðþjónusta, það frestast allt saman.“

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi