Þróunin hefur verið býsna hröð eftir að fyrsti Íslendingurinn greindist með veiruna fyrir tæpri viku. Síðan þá hafa 33 sýni reynst jákvæð, allt úr fólki sem var á skíðum á annað hvort í Austurríki eða á Norður Ítalíu. Það er nú í einangrun heima hjá sér.
Á fjórða hundrað er í sóttkví, meðal annars allir farþegarnir sem komu til landsins frá Veróna á laugardag.
Víðir segir að yfirvöldum hafi borist ábendingar um fólk sem á að hafa hunsað tilmæli um sóttkví. „Við höfum fylgt þeim ábendingum eftir og haft samband við fólk sem hefur þá reynst vera heima hjá sér. Þetta má þá rekja til þess að viðkomandi hefur verið á ferðinni áður en hann fékk tilmæli um að vera í sóttkví,“ segir Víðir. Þetta hafi síðan kallað á smitrakningar sem hafa gengið vel.
Von er á 74 Íslendingum með vél Icelandair frá Veróna á laugardag. Þeir þurfa allir að fara í tveggja vikna sóttkví. Mikill viðbúnaður verður vegna vélarinnar; flugfreyjur um borð verða menntaðir hjúkrunarfræðingar, engin þjónustu verður í boði heldur fá farþegar nesti fyrir flugið.
Víðir segir að hópnum verði einnig dreift um vélina til að minnka líkurnar á smiti. Þá verður það tryggt að hópurinn blandist ekki öðrum farþegum í flugstöðinni.