Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

334 milljarðar í stöðugleikaframlag

02.10.2015 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Slitastjórn Landsbankans ætlar að greiða rúma 14 milljarða í stöðugleikaframlag og ganga til nauðasamninga fyrir áramót. Alls munu slitabú stóru bankanna þriggja greiða rúma 334 milljarða í stöðugleikaframlag.

Kröfuhafafundur í slitameðferð gamla Landsbankans fór fram á Nordica hótelinu í morgun. Þar kom fram að slitastjórnin hefur þegar innheimt 1.335 milljarða af þeim 1.663 milljörðum sem áætlað var að endurheimta, eða rúmlega 80%. Samkvæmt heimildum fréttastofu var lagt til á fundinum, að gengið yrði til nauðasamninga við ríkið, og að greiddir yrðu 14,4 milljarðar króna í stöðugleikaframlag til ríkissjóðs, miðað við núverandi stöðu búsins. Þar með yrði komið í veg fyrir að búið þyrfti að greiða 39% stöðugleikaskatt. Kröfuhafar mótmæltu ekki þessari ráðstöfun, og mun því slitastjórnin vinna að gerð nauðasamninga fram að næsta kröfuhafafundi í nóvember. Á þeim fundi verða greidd atkvæði um samningana.

Á fundinum í morgun var einnig lagt til að stofnaður yrði skaðleysissjóður til að forða megi stjórnendum slitastjórnarinnar frá kostnaði vegna mögulegra málaferla á hendur þeim. Því var ekki mótmælt af hálfu kröfuhafa.

Áður höfðu kröfuhafar Kaupþings samþykkt að greiða tæplega 120 milljarða króna í stöðugleikaframlag, og kröfuhafar Glitnis 200 milljarða. Alls hafa því kröfuhafar slitabúanna þriggja samþykkt að greiða um 334 milljarða króna í ríkissjóð. Lægra framlag slitastjórnar Landsbankans skýrist fyrst og fremst af því að krónueign búsins er töluvert lægri en hinna tveggja.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV