Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

3.000 hrafnar veiddir á hverju ári á Íslandi

06.09.2017 - 22:29
Mynd: - / wikimedia
Draga verður verulega úr veiðum á hröfnum hér á landi, til að koma í veg fyrir að hann nánast hverfi. Þetta er mat Náttúrufræðistofnunar sem ætlar að leggja það til við ráðherra að dregið verði úr veiðum. Um 3.000 hrafnar eru veiddir árlega.

Hrafnar eru veiddir hér á landi, vegna tjóns sem þeir kunna að valda. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun eru um 3.000 hrafnar veiddir á hverju ári. Heimilt er að veiða hrafninn allt árið um kring.

Hefur Náttúrufræðistofnun skilning á þessum veiðum?

„Já og nei. Fuglarnir geta valdið tjóni en hins vegar er það tímaskekkja að vera með svona opinn veiðitíma á þessa tegund og fleiri,“ segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Kristinn segir að það séu meðal annars æðabændur sem veiði hrafninn þar sem hann rænir hreiðrin og veldur tjóni. Mest sé þó drepið af hrafni í kringum öskuhauga.

Síðasta stofnstærðarmat er frá fyrri hluta níunda áratugarins. Þá taldi stofninn 13.000 hrafna að hausti. Kristinn segir að síðan þá hafi ástandið versnað.

Er á válista

Er hrafninn í einhverri hættu?

„Hann er í hættu að því leyti að honum hefur fækkað stöðugt um áratuga skeið og ef fer fram sem horfir verður lítið af hröfnum hér eftir einhverja áratugi.“

Er hann á válista?

„Hann er á válista og verður það væntanlega áfram.“

Hvað vill Náttúrufræðistofnun að verði gert?

„Að það verði dregið verulega úr veiðum á hröfnum.“

Er þetta eitthvað sem þið ætlið að leggja til að verði gert?

„Þetta hefur verið lagt til margoft og síðast fyrir um tveimur árum. Þá var lagt til að hrafninn og aðrir fuglar yrðu friðaðar fyrir þeim veiðum sem stundaðar hafa verið, meðal annars kjóar og ýmsir mávar.“

Og þið ætlið að leggja þetta til við umhverfisráðherra núna?

„Já við ætlum að ítreka þá skoðun sem komið hefur fram margsinnis.“

Hvenær verður það gert?

„Það verður gert núna í lok mánaðarins,“ segir Kristinn.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV