Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

300 tonn af smjöri á útsöluverði til útlanda

22.10.2019 - 02:14
Mynd með færslu
 Mynd: wikicommons
MS hyggst selja allt að 300 tonn af smjöri til útlanda á þessu ári til að saxa á umframbirgðir, en smjörbirgðir fyrirtækisins hafa ekki verið meiri í þrjú ár. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu. Um 650 tonn af smjöri eru nú á lager hjá MS. Þegar hafa um 100 tonn verið seld úr landi og ætlunin er að selja um 200 tonn til viðbótar til útlanda áður en árið er úti. Um 490 krónur hafa fengist fyrir kílóið af útfluttu smjöri.

Í frétt blaðsins er vitnað í yfirlit Pálma Vilhjálmssonar, aðstoðarforstjóra MS, um mjólkurbirgðir. Þar kemur fram að smjörbirgðirnar í ágústlok hafi verið um 150 tonnum meiri en á sama tíma í fyrra og hafi síðast verið svo miklar í ágúst 2016. 

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, segir í Fréttablaðinu að útflutningur á íslenskum mjólkurvörum muni seint borga sig, þar sem evrópskir markaðir séu fullir og íslensk framleiðsla dýr. Útflutningur á mjólkurvörum sé því fyrst og fremst stundaður „til að halda jafnvægi" á innalandsmarkaði.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV