Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

300 til 400 fyrrum starfsmenn WOW enn án vinnu

02.10.2019 - 09:01
Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV
Þrjú til fjögur hundruð fyrrum starfsmenn WOW air eru enn án atvinnu. Atvinnuleysi á árinu er meira en Vinnumálastofnun hafði spáð.

Enn er stór hópur fyrrum starfsmanna flugfélagsins WOW air án atvinnu. Fyrirtækið varð gjaldþrota í mars og þá misstu 1.100 starfsmenn flugfélagsins störf sín. „Þeim hefur verið að fækka hægt og bítandi en kannski ekki eins hratt og við vonuðum. Það eru enn þá alveg þrjú til fjögur hundruð manns eftir og stærsti hópurinn eru flugfreyjurnar og flugþjónarnir,“ sagði Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Margir fyrrum flugmenn WOW air komnir með vinnu

Upp til hópa eru fyrrum starfsmenn WOW air sem enn eru án atvinnu vel menntaðir, að sögn Unnar. Ef af stofnun tveggja nýrra flugfélaga verður, geti flugfreyjurnar líklega fengið störf slík störf á ný. Annars þurfi þær að leita að annars konar störfum, líkt og margar þeirra hafi gert. Margir flugmenn sem unnu hjá WOW air hafa fengið ný störf í útlöndum. Flugmönnum án atvinnu hefur því fækkað hraðar á atvinnuleysisskrá en flugfreyjum. 

Spá 4% atvinnuleysi í desember

Atvinnuleysið á þessu ári hefur verið meira en spáð var. Gert er ráð fyrir um fjögurra prósenta atvinnuleysi í desember og að það fari að minnka í mars. Unnur segir að það hafi verið vitað að það yrði samdráttur á árinu og ekki sama uppsveifla og undanfarin ár. Á íslenskan mælikvarða þykir fjögurra prósenta atvinnuleysi nokkuð mikið og vonar Unnur að staðan lagist þegar líður fram á næsta vor. 

Útlendingum án atvinnu hefur fjölgað

Ríflega hundrað bankastarfsmönnum var sagt upp í september. Ekki er vitað hve stór hluti þeirra fer á atvinnuleysisskrá. Sumir þeirra eru með lengri uppsagnarfrest en þrjá mánuði. Háskólamenntuðum án atvinnu hefur fjölgað. „Hlutfallslega hefur háskólamenntuðu fólki, því hefur verið að fjölga, en samsetningin hefur verið að breytast líka þannig að útlendingum hefur fjölgað mjög mikið hlutfallslega, meira en Íslendingum á atvinnuleysisskrá. Svo er alltaf stærsti hópurinn hjá okkur eru þeir sem hafa grunnskólamenntun og ekki meira.“