30% fleiri ungmenni leita á LSH vegna lyfjaeitrunar

10.01.2020 - 19:55
Mynd: CC / Pixabay
Nærri þrjátíu prósentum fleiri ungmenni leituðu á Landspítalann vegna lyfjaeitrunar í fyrra en 2018. Forstöðumaður bráðaþjónustu segir efnin vera að breytast, meira sé um kókaín og minna um sterk verkjalyf.

940 manns leituðu á Landspítalann vegna lyfjaeitrunar á síðasta ári vegna ofneyslu vímugefandi lyfja. Tilvikin hafa aukist jafnt og þétt. Samkvæmt skráningum Landspítalans komu um 100 fleiri til spítalans í fyrra en 2017 og 200 fleiri en 2016.

Fimm prósent þeirra 940 sem komu á spítalann í fyrra voru yngri en 18 ára. Undanfarin fjögur ár hafa að meðaltali 40 börn komið þangað vegna eitrunar en voru 53 í fyrra, eða tæplega 30 prósentum fleiri. 

Meira kókaín og minna af sterkum verkjalyfjum

„Það er alltaf áhyggjuefni þegar við sjáum meira af lyfjaeitrunum sérstaklega í þessum yngsta aldurshópi. Við erum líka að sjá fleiri og ný efni í þessu, á árinu í fyrra sáum við tilkomu aukningar í kókaíni og við sáum spice byrja að koma. Við höfum alltaf áhyggjur af því þegar ný efni bætast við,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, forstöðumaður bráðaþjónustu á LSH. „Við erum að sjá frekar fækkun í tilfellum þar sem eru mikið af ofskömmtunum í sterkum verkjalyfjum en það kemur þó enn þá fyrir.“

Að fleiri leiti á spítalann vegna kókaíns rímar við bráðabirgðartölur ríkislögreglustjóra fyrir síðasta ár. Lögreglan hefur aldrei lagt hald á jafn mikið af kókaíni á einu ári.

Embætti landlæknis hefur 36 andlát frá janúar til október á síðasta ári til skoðunar vegna lyfjaeitrunar. Tölur fyrir allt árið liggja ekki fyrir en 2018 voru 39 lyfjatengd andlát skráð í dánarmeinaskrá.

Börnum yngri en 15 ára sem koma á Landspítalann með lyfjaeitrun hefur líka fjölgað. Í fyrra komu 11, 6 árið á undan en tvö árið 2016 og 2017. „Ég held að þetta sé stórt samfélagslegt samvinnuverkefni þar sem heilbrigðisþjónusta, löggæsla og tollgæsla - en líka skólar og fræðsluyfirvöld þurfa að vinna saman til að minnka þetta,“ segir Jón Magnús jafnframt.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Jón Magnús Kristjánsson, forstöðumaður bráðaþjónustu á LSH

 

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi er sammála því að efnin hafi breyst. „Það er aukning á örvandi vímuefnum og sérstaklega kókaíni og líka meiri fjölbreytni í lyfjanotkun eða neyslu það endurspeglast líka í þessum yngsta hópi. Það er líka aukning á fikti eða að fólk sé að sprauta í æð, jafnvel í yngsta hópnum.“ Færri ungir leita í meðferð á Vogi, tölur þaðan sýna stöðuga fækkun innlagna frá árinu 2000.

„Kannski er tækifæri að grípa inn í þegar eitthvað kemur upp á og það þarf að flytja fólk á bráðamótttöku. Þá er kannski full ástæða til að greina hvort að undirliggjandi vandi sé eins og fíkn,“ segir Valgerður jafnframt.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi