Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

30 fleiri á bráðamótttöku en pláss leyfir

06.01.2020 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Áttatíu og tveir verða í nótt á bráðamótttöku Landspítalans, um þrjátíu fleiri en er pláss fyrir. Marta Jónsdóttir formaður hjúkrunarráðs Landspítala segir ástandið alvarlegt. Meðalbiðtími hefur aukist um tíu klukkustundir á tveimur árum.

Bráðamóttaka Landspítalans skiptist í tvennt, slysamóttaka á neðri hæð þar sem er pláss fyrir 36 sjúklinga. Þar eru núna 50 manns. Á efri hæðinni þar sem veikindi og áverkum er sinnt er pláss fyrir 15, þar eru núna 32. 

„Ástandið á bráðamóttökunni núna er mjög alvarlegt. Húsið er ekki hannað fyrir allan þennan fjölda. Það er ekki nógu mikið af salernum eða herbergjum fyrir fólk, sjúkrarúmum er staflað á ganginn, sumir fá ekki rúm og liggja á hörðum bekkjum. Svo er það persónuvernd. Þegar það er svona þétt um fólk, þá er verið að færa fólki allskonar fréttir í mjög miklum þrengslum,“ segir Marta Jónsdóttir formaður hjúkrunarráðs Landspítala.

Þá segir Marta að ekki sé hægt að sinna fullnægjandi sýkingavörnum. Meðalbiðtími eftir innlögn nú 26 klukkustundir, en var 16 fyrir tveimur árum. „Til dæmis eins og í sumar var fólk að bíða í 7-10 daga á bráðamóttöku eftir að komast inn á viðeigandi legudeild,“ bætir hún við. Bráðamóttaka endurspeglar ástandið á öðrum deildum spítalans að mati Mörtu þar sem það skorti rými. 

Í fréttum RÚV í kvöld kom fram að hefja hafi þurft meðferð á sjúklingi í sjúkrabíl síðustu nótt vegna plássleysis á bráðamóttökunni. „Aðsóknin er alltaf aukast, þannig að því miður já. Þá má búast við að þetta sé í fyrsta skipti sem það gerist en alls ekki það síðasta,“ segir Marta jafnframt.

Heilbrigðisráðherra sagðist í dag ætla að beita sér fyrir meira fjármagni til heilbrigðismála. Marta segir brýnt að semja við hjúkrunarfræðinga og lækna sem hafa verið kjarasamningslausir í að verða ár.

„Heilbrigðisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Landspítali þurfa að vinna að því hörðum höndum að laga þetta ástand sem fyrst svo við getum haft viðunandi heilbrigðiskerfi,“ segir hún. Hvernig þá? „Til dæmis er hægt að semja við starfsstéttir í heilbrigðiskerfinu. Þar á meðal hjúkrunarfræðinga sem hafa verið kjarasamningslausir síðan í mars.“