27 með COVID-19 í Vestmannaeyjum

22.03.2020 - 00:56
Mynd með færslu
 Mynd:
16 ný COVID-19 tilfelli voru staðfest í Vestmannaeyjum í dag og eru þau þá alls orðin 27 talsins. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Þar segir að búist hafi verið við því að nokkur þeirra sýna sem tekin voru í gær kynnu að reynast jákvæð, þar sem talsverður hluti þeirra var tekinn úr fólki sem hafði verið í nánum samskiptum við fólk með staðfest smit. Fjöldi nýsmita hafi þó verið heldur meiri en búist var við. Af þeim 16 sem greindust í dag voru 10 þegar í sóttkví.

Einum þeirra sem greindist með veiruna í þessari lotu hrakaði svo í dag að hann var lagður inn á sjúkrahús. Þegar í ljós kom að hann var með COVID-19 var hann fluttur í land með sjúkraflugvél og lagður inn á Landspítalann, í samræmi við landsáætlun um viðbrögð við faraldrinum.

Smitrakning hafin, nær 400 í sóttkví

Vinna við smitrakningu og sóttkvíun vegna þessara 16 nýju tilfella fór af stað strax þegar niðurstöður fóru að berast, segir í færslu lögreglunnar, og voru enn í gangi á fyrsta tímanum í nótt. 397 eyjarskeggjar voru komnir í sóttkví þegar lögreglan setti þessa færslu inn, skömmu eftir miðnætti, og ljóst að þeim á enn eftir að fjölga.

Sjá einnig: Fjöldasamkomur með fleiri en tíu bannaðar í Eyjum

Fyrr í kvöld var tilkynnt um hertar reglur um samkomubann í Eyjum, þar sem ljóst var að tilfellum hafði fjölgað umtalsvert. Markmiðið með því, eins og sóttkvínni og sýnatökunum, er að hefta útbreiðslu COVID-19 í Eyjum. Biðlar lögregla til allra Eyjamanna að leggjast á árarnar „til að hægja á framsókn veirunnar og vernda þá sem eru í áhættuhópum.“

Enginn í 7. bekk grunnskólans reyndist með COVID-19

Góðu fréttirnar frá Eyjum eru þær, að þau óvenju útbreiddu veikindi sem upp komu í 7. bekkjum Grunnskóla Vestmannaeyja nýverið reyndust ekki vera af völdum COVID-19. Í varúðarskyni voru allir nemendur og starfsfólk sem tengjast þessum bekkjum sett í tímabundna úrvinnslukví, þar sem í þeirra hópi er talsvert um börn með tengsl við fólk með staðfest COVID-19 smit.

Sjá einnig: Róttækar aðgerðir í Eyjum og Húnaþingi vestra

Tekin voru sýni úr öllum lösnum nemendum og, í sumum tilfellum, úr öðrum í fjölskyldu þeirra sem líka voru með grunsamleg einkenni. Öll sýnin reyndust neikvæð, sem þýðir að engin þeirra sýndu merki um kórónuveiruna sem veldur COVID-19. Langflest úr þessum hópi losna því úr sóttkví á morgun. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi