Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

252 milljóna króna gjaldþrot Kredia

08.01.2019 - 10:12
Mynd með færslu
 Mynd: Timarit.is/skjáskot
Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra frá því í apríl 2017 var rekstraraðili smálánafyrirtækisins Kredia, Credit one ehf., tekinn til gjaldþrotaskipta. Lýst var rúmlega 252 milljóna króna kröfum í búið. Engar eignir fundust í búinu og lauk skiptum 28. desember 2018 án þess að greiðsla fengist upp í kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta.

Ingvar Þóroddsson, skiptastjóri í þrotabúinu, segir í samtali við fréttastofu að háar kröfur hafi borist frá sýslumanni og tollstjóra. Einnig var stór krafa frá Smáláni, öðru smálánafyrirtæki sem nú er gjaldþrota. Kröfur þessara þriggja aðila eru rúmlega 250 milljónir króna.

Bæði Kredia og Smálán voru nokkrum sinnum sektuð fyrir gróf brot þar sem viðskiptavinir voru krafðir um margfalt hærri kostnað við lántöku en heimilt var. Áfrýjunarnefnd neytendamála komst að þeirri niðurstöðu að lántakar hefðu verið leyndir þessari staðreynd þar sem upplýsingagjöf hafi brotið verulega gegn lögum.