Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

2,5 milljarðar í sjóði sem fjárfesta í nýsköpun

28.11.2019 - 21:34
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Sigurðsson - RÚV
Ríkisstjórnin mun á næstu árum verja 2,5 milljörðum króna í sjóði sem munu fjárfesta í íslenskum tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta kynnti ráðherra nýsköpunarmála á Tækni- og hugverkaþingi sem fram fór í Hörpu síðdegis í dag.

 

Um er að ræða hvatasjóð sem hefur hlotið nafnið Kría. Honum er ætlað að fjárfesta í frumkvöðlastarfsemi hér á landi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra segir að sjóðurinn muni fjárfesta í öðrum sjóðum sem að síðan eru að fjárfesta í fyrirtækjum.
„Þetta er ekki ríkissjóður sem er að fjárfesta beint í fyrirtækum. Þetta er það sem okkur vantar hér. Okkur vantar öflugra vísisjóðakerfi sem er þroskaðra annars staðar og við litum til landa eins og Finnlands, Ísraels og fleiri landa sem eru að gera þetta vel og við erum ekki að finna uppá neinu hjóli. Við erum bara að leggja til þá aðgerð sem skiptir mestu máli til að auka súrefni í þessum geira. Þetta er í rauninni til þess að auka líkur á því að góðar hugmyndir og öflug fyrirtæki sem að þurfa að ná flugi geri það.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir það hafa verið ákveðið vandamál hér á landi að það hafi vantað fjármagn á fyrstu stigum í líftíma fyrirtækja.

„Þessi sjóður, Kría, er svo mikilvægur til þess að fleiri hugmyndir geti dafnað og komist á legg og orðið að verðmætum fyrirtækjum.“

Nýsköpunarráðherra telur að fjármagnið muni skila sér margfalt til baka.

„ Við sjáum það í þeim fyrirtækjum sem hafa orðið til og síðan lagst af þá hafa þau verið eins og skóli fyrir starfsmenn. Þú getur horft á ættartré slíkra fyrirtækja þannig að það kemur margfalt til baka og þetta er bara mjög heilbrigður og eðlilegur liður í þessu sem við þurfum mjög á að halda.“ 

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV