25 flóttamenn væntanlegir til landsins

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið - RÚV

25 flóttamenn væntanlegir til landsins

04.09.2019 - 13:21

Höfundar

Tuttugu og fimm flóttamenn frá Úganda, Rúanda, Kongó, Súdan og Simbabve koma til landsins 12. september og setjast að í Garðabæ og Seltjarnarnesi. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi sveitarfélög taka á móti kvótaflóttamönnum. Fyrirhugað er að Mosfellsbær taki einnig á móti hluta hópsins, sem verður þá í annað sinn sem sveitarfélagið gerir það.

Samkomulag um móttökuna var undirritað í dag af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra og fulltrúum sveitarfélaganna Garðabæjar og Seltjarnarness.

Fólkið þurfti að flýja heimkynni sín vegna kynhneigðar sinnar og er þetta í þriðja sinn sem íslensk stjórnvöld taka á móti hinsegin flóttafólki. Móttaka þeirra er í samvinnu við sveitarfélög og Rauða krossinn á Íslandi. Mikillar ánægju hefur gætt meðal fólks í sveitarfélögunum þar sem tekið hefur verið á móti flóttafólki. Samkvæmt samningunum er greidd framfærsla og sérstakur stuðningur til dæmis vegna skólagöngu, íslenskukennslu, samfélagsfræðslu og túlkaþjónustu.

Dauðarefsins við samkynhneigð

„Það er fagnaðarefni að sveitarfélög séu jákvæð þegar kemur að því að taka á móti fólki á flótta. Frumkvæði sveitarfélaga og gott samstarf allra hlutaðeigandi aðila er ástæða þess að vel hefur tekist til við móttöku flóttafólks á undanförnum árum,“ sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

Hinsegin flóttafólki hefur fjölgað í heiminum en í dag er samkynhneigð bönnuð samkvæmt lögum í yfir sjötíu löndum. Dauðarefsing er hámarksrefsingin í ellefu þeirra.

Í ljósi sérstöðu hópsins var einnig undirritaður samningur við Samtökin '78 um ráðgjöf og fræðslu til flóttafólksins, sveitarfélaganna og Rauða krossins á Íslandi og sjálfboðaliða þeirra.

Ríkisstjórnin samþykkti 12. október að tekið yrði á móti allt að 75 flóttamönnum árið 2019. Fyrri hópurinn kom til landsins í apríl en þá var tekið á móti 50 manns frá Sýrlandi sem settust að á Hvammstanga, á Blönduósi og í Árborg. Ekki hefur verið tekið á móti fleira flóttafólki síðan 1999 þegar tekið var á móti 75 manns frá Kosovo.     

Tengdar fréttir

Erlent

Fjárskortur sviptir flóttabörn menntun

Evrópa

Evrópuríki taka við flóttafólki

Höfuðborgarsvæðið

Gengur vel að undirbúa komu flóttafólks

Húnaþing vestra

Flóttafólk setur svip á bæjarlífið