Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

24 tillögur að byggðaverkefnum á Bakkafirði

06.11.2019 - 18:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Verkefnisáætlun um uppbyggingu samfélagsins á Bakkafirði var samþykkt á íbúafundi þar í gær. Þar voru kynntar 24 tillögur að byggðaverkefnum. Verkefnisstjóri verkefnisins „Betri Bakkafjörður“ segir íbúa áhugasama um að taka þátt í þessu starfi, en staðan sé erfið.

Mikill byggðavandi hefur steðjað að Bakkafirði og samfélaginu þar undanfarin ár og hefur lengi verið fjallað um mögulegar leiðir til að ráða bót á því. Fyrr á þessu ári var Bakkafjörður tekinn inn í verkefni Byggðastofnunar um brothættar byggðir og sérstök verkefnastjórn skipuð.

Íbúarnir þeirrar skoðunar að þetta sé hægt

Í gær var haldinn íbúafundur á Bakkafirði þar sem lögð voru fyrir og rædd drög að verkefnisáætlun fyrir næstu mánuði. Ólafur Áki Ragnarsson, verkefnisstjóri, telur að verkefnið sé að bera árangur. „Ég myndi merkja það eftir fundinn í gær en það var mjög jákvæður fundur. En auðvitað er þetta byggðarlag mjög brotið og ekkert auðvelt að breyta því. En ég heyri það á íbúunum að þeir eru þeirrar skoðunar að þetta sé hægt og við viljum styðja við bakið á þeim í því.“

Ferðaþjónusta á Bakkafirði óplægður akur 

Meðal þess sem áætlunin nær yfir eru innviðaverkefni, lausnir í skóla- og dagvistunarmálum, fjarvinnsla, kaffihús, náttúrurannsóknir, umhverfismál og ferðaþjónusta svo eitthvað sé nefnt. Og Ólafur segir unnið að stofnun fyrirtækja, einkum í ferðaþjónustu. „Ferðaþjónustan er óplægður akur hérna og við erum að vinna nokkuð mikið í kringum þau mál. Það er komin hér gisting í skólahúsnæðið og það er verið að byggja upp þjónustuhús hérna með fjölbreyttri þjónustu. Og síðan hafa utanaðkomandi ferðaþjónustuaðilar bankað á dyrjar og vilja skoða hvaða möguleikar eru hér.“

Nýstárlegar hugmyndir frá ungu fólki

Og hann segir áberandi hversu ungt fólk á Bakkafirði sé áhugasamt. Frá þeim hafi komið ýmsar nýstárlegar hugmyndir sem verkefnastjórnin hafi farið í gegnum með þeim. „Þetta eru mjög áhugaverð mál og kannski ekki þessi hefðbundnu mál eins og landbúnaður og fiskur heldur höfum við farið svolítið út fyrir kassann. Og við þurfum að hugsa út fyrir kassann af því að þessar atvinnugreinar okkar sem við höfum búið við og lifað á verða kannski ekki stór innlegg inn í okkar atvinnu hér á næstunni.“