Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

238 mál tengd vændi á síðustu 12 árum

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
238 mál tengd vændi komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá 2007 til 2018. Aðeins níu mál áttu sér stað í fyrra. 146 málanna á tímabilinu hafa farið í ákærumeðferð, 12 eru enn í vinnslu og rannsókn var hætt í 80 málum. Rannsókn er hætt þegar ekki liggja fyrir nægar upplýsingar til að líklegt þyki að málið leiði til sakfellingar.

Málin varða flest kaup á vændi en einnig það að hafa atvinnu af vændi annarra eða að hafa stuðlað að vændi annarra. Af þeim málum sem fóru fyrir dóm var sýknað í 70 þeirra eða þau felld niður. Sekt var greidd eða dæmt í 73 málum. Tæplega 4,5 milljón króna hafa verið innheimtar í sektir. 

Á þessu 11 ára tímabili voru flest mál skráð árið 2013, 104 talsins. Um helmingur þeirra mála áttu sér stað árið áður en þau voru skráð árið 2013. Það ár komu upp stór mál í tengslum við starfsemi kampavínsstaða.

 

 

Aðeins níu mál á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu áttu sér stað í fyrra. Þar af voru sjö vegna kaupa á vændi og tvö fyrir að hafa stuðlað að vændi annarra. Alls voru 35 mál skráð í fyrra, 26 þeirra höfðu átt sér stað áður.

Í samantekt um vændismál sem lögreglan sendi fréttastofu kemur fram að fjöldi vændismála hverju sinni sé háður frumkvæði lögreglu og ráðist að miklu leyti af því hve miklum tíma lögregla geti varið í málaflokkinn.