Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

235 milljóna króna kröfur í þrotabú DV

24.05.2018 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Kröfulýsingafrestur í þrotabú DV rann út á mánudag. Þá var búið að lýsa kröfum í búið upp á 235 milljónir króna. Þar af eru 51,5 milljónir forgangskröfur vegna vangoldinna launa og lífeyrisgreiðslna. Almennar kröfur eru upp á 183,5 milljónir króna og er stærsta krafan frá Tollstjóra vegna opinberra gjalda.

Kristján B. Thorlacius, skiptastjóri DV og Pressunnar, segir að eftir sé að fara yfir og taka afstöðu til þeirra krafna sem lýst var í þrotabú DV. Því er ekki ljóst á þessari stundu hvort þær verði allar samþykktar. Eins og RÚV sagði frá í síðasta mánuði var kröfum upp á 315 milljónir króna lýst í þrotabú Pressunnar. Langstærstu kröfunni var hafnað og því námu viðurkenndar kröfur 110 milljónum króna. Ekki er útlit fyrir að sams konar breyting verði á lýstum kröfum og viðurkenndum í þrotabú DV.

DV var lýst gjaldþrota í mars og Pressan í desember síðastliðnum. Þá var lítið eftir af eignum í félögunum. Allir helstu fjölmiðlar voru seldir Frjálsri fjölmiðlun, félagi í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar. Það voru DV, Pressan, Eyjan, Bleikt og 433.is. Síðan þá hafa flestir fjölmiðlarnir farið undir vef DV.is. Stærstu eigendur Pressunnar og helstu stjórnendur fyrirtækisins deildu hástöfum um hvernig staðið var að sölunni og hvernig fjármunum sem fengust fyrir hana var ráðstafað. 

Nokkrir þeir sem áttu inni fé hjá Pressunni og DV höfðuðu innheimtumál í fyrra. Samið var við suma en eitt mál er enn í gangi. Það er mál Útvarðar gegn Pressunni og snýst um greiðslur á kaupverði fyrir DV. Aðalmeðferð í því máli fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.

Frá risa á fjölmiðlamarkaði til tveggja gjaldþrota

DV var lengi vel einn öflugasti fjölmiðill landsins. Það varð til við samruna síðdegisblaðanna Dagblaðsins og Vísis árið 1981. Nokkrum árum síðar mældist blaðið með 64 prósenta lestur. Þegar leið á níunda og tíunda áratuginn dró mjög úr lestri blaðsins. Tilkoma Fréttablaðsins reyndist blaðinu þung í skauti og árið 2003 var það tekið til gjaldþrotaskipta. Blaðið var endurreist af útgáfufélagi Fréttablaðsins viku eftir gjaldþrotið og rekið áfram sem dagblað í þrjú ár áður en því var breytt í vikublað um nokkurra mánaða skeið.

DV var endurreist sem dagblað árið 2007 og samnefndur vefur stofnaður en eftir hrun fór útgáfudögum að fækka. Nú er það gefið út sem vikublað. DV hefur frá aldamótum verið gefið út af nokkrum útgáfufélögum og gengið kaupum og sölum. Lestrartölur fóru lækkandi og fjárhagurinn var oftast bágur. Síðustu árin dróst löngum að greiða opinber gjöld og standa skil á lífeyrisiðgjöldum.