Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

230 milljarða aðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Kostnaður við aðgerðir í fyrsta áfanga stjórnvalda til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru nemur um 230 milljörðum króna, sem eru tæplega 8 prósent af landsframleiðslu. Aðgerðirnar voru kynntar á blaðamannafundi nú eftir hádegi. Í þeim eru meðal annars brúarlán til fyrirtækja sem ríkið ábyrgðist að hluta, sérstakar barnabætur í júní og 100 prósent endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna viðgerða á heimilum.

Laun til fólks í sóttkví og atvinnuleysisbætur á móti skertu hlutfalli voru kynnt í gær. Allar aðgerðirnar sem ráðast á í núna á vegum stjórnvalda vegna efnahagslegra áhrifa af völdum útbreiðslu veirunnar kynntu Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, á blaðamannafundi í Hörpu í dag. Í stuttu máli eru aðgerðirnar þessar:

  • Ríkið greiðir allt að 75% launa fólks næstu mánuði
  • Ríkisábyrgð á brúarlánum til fyrirtækja
  • Frestun og afnám opinberra gjalda
  • Ferðaþjónusta styrkt
  • Sérstakur barnabótaauki með öllum börnum
  • Heimild til úttektar séreignarsparnaðar
  • Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna framkvæmda
  • Framkvæmdum flýtt og fjárfest í tækniinnviðum

Fram kom í máli forsætisráðherra að nú væru fordæmalausir tímar og það væri líkt og í vísindaskáldsögu að fylgjast með þeim blaðamönnum sem hlýddu á fundinn sem sátu vítt og breitt um salinn í töluverðri fjarlægð hver frá öðrum. Greiðslur til fólks í sóttkví og hlutdeild ríkisins í launum fólks í skertu starfshlutfalli voru afgreiddar á Alþingi í gær og sagði Katrín gleðilegt að finna samstöðuna þar. Allar tillögurnar hafi verið kynntar fyrir formönnum flokka á þingi og ríkur vilji sé til að þess að stjórnvöld geri sitt til að milda fjárhagslegt högg almennings. 

Aðgerðirnar sem stjórnvöld grípa til nú vegna efnahagslegra afleiðinga faraldursins eru án allrar hliðstæðu, sagði fjármálaráðherra á fundinum. Allir séu boðnir og búnir til þess að glíma við erfiðleikana sem að steðji, hvort sem þeir séu efnahagslegir eða heilsufarslegir. 

Sveitarfélögin ætla einnig að létta undir fyrirtækjum með því að fresta gjalddögum á fasteignagjöldum hjá fyrirtækjum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sagði Sigurður Ingi. Ef ástandið dregst á langinn séu stjórnvöld tilbúin að ganga lengra með aðgerðum sínum. 

Hvetja fyrirtæki til að segja ekki upp fólki

Ríkið greiðir allt að þrjá fjórðu hluta launa fólks í skertu starfshlutfalli fram á vor. Fram kom í máli ráðherranna á blaðamannafundinum að þetta úrræði verði endurskoðað í vor og að ef þörf krefji verði það framlengt. Fjármálaráðherra sagði að ríkisstjórnin vilji hvetja fyrirtæki til að segja ekki upp fólki, heldur halda sínu starfsfólki í gegnum þessa erfiðu tíma. Gert er ráð fyrir að þetta úrræði kosti um 22 milljarða króna og nær það til starfsmanna allra fyrirtækja sem glíma við rekstrarerfiðleika vegna afleiðinga af útbreiðslu veirunnar. 

Ríkið í 50% ábyrgð brúarlána

Viðskiptabankarnir veita sérstök brúarlán til fyrirtækja. Þetta eru ný lán til fyrirtækja sem eiga í rekstrarvanda. Ríkið gengur í ábyrgð á helmingi upphæðar vegna lánanna sem verða til allra fyrirtækja í heilbrigðum rekstri, sem þurfa sérstakan stuðning á þessum tímum, sagði Bjarni á fundinum. Þetta eykur lánagetu bankanna til fyrirtækja um 70 milljarða króna á árinu. 

Meðal annarra aðgerða er að þremur gjalddögum vegna staðgreiðslu og tryggingargjalds verður hægt að fresta fram í ársbyrjun 2021 og ríkissjóður endurgreiðir fyrirtækjum laun til fólks í sóttkví. 

Barnabótaauki verður greiddur foreldrum allra barna í júní. Greiðslan verður tekjutengd og er áætlað að heildarkostnaður ríkisins verði um 3,1 milljarður króna. 

Fólki verður heimilt að taka út séreignarsparnað sinn vegna þessara tímabundnu efnahagsþrenginga. Hámarkið eru 800.000 krónur á mánuði í 15 mánuði. 

Fá ókeypis stafrænt gjafabréf til ferðalaga

Allir landsmenn, 18 ára og eldri, fá gefins stafrænt gjafabréf í ferðaþjónustu innanlands. Þetta er gert til að fólk ferðist frekar um landið og er beinn stuðningur ríkisins við greinina. Áætlaður kostnaður er 1,5 milljarður króna og er verið að skipuleggja þennan lið í samstarfi við fulltrúa ferðaþjónustunnar. 

„Allir vinna“ úrræðið verður útvíkkað þannig að allur virðisaukaskattur af framkvæmdum á húsnæði einstaklinga verður endurgreiddur. Endurgreiðslan nær nú einnig til heimilisaðstoðar auk byggingaframkvæmda félagasamtaka til almannaheilla, svo sem íþrótta- og líknarfélaga.

Stjórnvöld ætla að greiða fyrir innflutningi með niðurfellingu og frestun gjalda innflutningsfyrirtækja. Tollafgreiðslugjöld verða felld niður tímabundið til loka næsta árs. Gjalddögum aðflutningsgjalda verður frestað um fjóra mánuði.

Ráðist verður í fjárfestingarátak og ætlar ríkið að fjárfesta fyrir 20 milljarða aukalega á árinu. Þessar fjárfestingar ná til dæmis til samgöngumannvirkja, nýsköpunar og orkuskipta. 

Hér má lesa tilkynningu stjórnvalda um aðgerðirnar.