Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

223 bjargað á Miðjarðarhafi á hálfum öðrum sólarhring

26.01.2020 - 01:39
Mynd með færslu
Þetta barn er í 223 manna hópi flóttafólks, sem nú er öruggt um borð í Ocean Viking eftir volk og hrakninga á yfirfullum manndrápsfleytum Mynd: SOS Mediterranee - twitter
Áhöfn norska björgunarskipsins Ocean Viking hefur bjargað 223 manns um borð í skipið í þremur björgunaraðgerðum á hálfum öðrum sólarhring. Snemma á föstudagsmorgun var 92 bjargað af yfirfullum gúmmíbát um 30 sjómílur undan Líbíuströnd, þar á meðal fjórum þunguðum konum og nokkrum kornabörnum. 32 í hópnum voru undir 18 ára aldri, þar af voru tíu fylgdarlaus börn yngri en 15 ára.

Margir um borð þjáðust af ofkælingu og sjóveiki, voru afar veikburða og útötuð í eldsneytisblönduðu vatni að auki.

Aðfaranótt laugardags bjargaði áhöfnin 59 körlum og konum af litlum og yfirfullum trébát, um 26 sjómílur undan ströndum Líbíu, og á laugardagskvöld bættust 72 í hópinn. Þau voru um borð í afar lélegum, óstöðugum og yfirfullum bát sem farinn var að hallast ískyggilega þegar þeim var bjargað, köldum og þrekuðum, í maltverskri landhelgi. Því er nú hlúð að samtals 223 flóttamönnum um borð í Ocean Viking, sem gerður er út og mannaður af hjálparsamtöknum SOS Mediterranee og Læknar án landamæra. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV