22 ríkustu eiga meira en allar afrískar konur

20.01.2020 - 04:29
epa05443686 People shop for secondhand clothes locally known as ?mitumba? at the Gikomba open-air market in Nairobi, Kenya, 27 July 2016. Gikomba market is said to be the biggest secondhand clothes market in East Africa. The secondhand clothes sold in the
Gikomba útimarkaðurinn í Naíróbí er sá stærsti sinnar tegundar í austanverðri Afríku. Mynd: EPA
Milljarðamæringar heimsins eru tvöfalt fleiri en fyrir áratug og eru samanlagt ríkari en 60% mannkyns. Þetta kemur fram í árlegri úttekt góðgerðarsamtakanna Oxfam, sem gefin er út í tengslum við fund Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss.

Í úttektinni segir að fátækar konur og stúlkur séu verst staddar. Daglega vinni þær samanlagt 12 og hálfan milljarð ógreiddra vinnustunda, sem væri virði um nærri 11 þúsund milljarða dollara á ári. Amitabh Behar, yfirmaður Oxfam á Indlandi, segir að hagkerfi okkar fylli vasa milljarðamæringa og stórfyrirtækja af fúlgum fjár, á kostnað venjulegra karla og kvenna. „Það er ekki furða að fólk sé farið að efast um að milljarðamæringar eigi að vera til," hefur AFP fréttastofan eftir Behar. Ekki verður hægt að minnka bilið á milli ríkra og fátækra án ákveðinnar stefnu stjórnvalda í þá átt, að mati Behar.

22 eiga meira en allar afríska konur

Meðal áhugaverðrar tölfræði í skýrslu Oxfam er að 22 ríkustu menn heims eiga meiri auð en allar 326 milljónir kvenna Afríku samanlagt. Einnig kemur fram að ef ríkasti hundraðshluti heimsins greiddi aðeins hálfu prósenti hærri skatta á næstu tíu árum, jafnist það á við þá fjárfestingu sem þarf til þess að tryggja 117 milljón störf við þjónstu við eldri borgara og börn, menntun og heilbrigðisþjónustu, að sögn Oxfam.

Tölur Oxfam eru byggðar á gögnum frá tímaritinu Forbes og svissneska bankanum Credit Suisse.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi